Útgerðin undirbýr fundaröð. „Á þessum fundum vilja SFS leggja sitt af mörkum til að reyna að þoka málefnum sjávarútvegs upp úr hjólförunum,“ skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í Moggann.
Eflaust er þetta tilraun til að mæta Ögmundi Jónassyni og Gunnari Smára, sem hafa farið víða og fyllt hvern fundarsalinn af öðrum.
Heiðrún Lind skrifar: „Við ætlum að hlusta á fólk úr ólíkum áttum, heyra um nýjar hugmyndir, aðra nálgun og vonandi tekst okkur að hvetja til gagnlegs samtals. Við höfum því boðið til þessara funda og vonumst til þess að eiga uppbyggileg skoðanaskipti og hreinskiptnar umræður um sjávarútveg. Ég vona að sem flestir mæti til funda við okkur og taki þannig þátt í að móta íslenskan sjávarútveg til framtíðar.“
Eflaust er mikilsvert fyrir útgerðina að trekkja að. Til þess er vel boðið:
„Boðað hefur verið til fjögurra opinna funda um málefni sjávarútvegsins, sá fyrsti verður miðvikudaginn 26. febrúar í Messanum, við hliðina á Sjóminjasafninu í Reykjavík. Þeir sem kjósa að taka daginn snemma eru velkomnir í morgunmat klukkan 8.30, en sjálfur fundurinn hefst klukkan 9.00.“
Ömmi og Smári hafa ekki boðið upp á veitingar eins og útgerðin ætlar að gera. Fjör færist í leikinn.