Meðan mikið er rætt um lágt og óskýrt verð á uppsjávarfiski hér, í samanburði við verð í Noregi, kjósa útgerðarmenn að svara engu. Þeim finnst hins vegar rétti tíminn núna að barma sér nokkuð. Rétt ofan í fréttir um verðlagninguna og ævintýralegan hagnað.
Mogginn, sem gerður út af útgerðarmönnum, er sínu fólki tryggur og birtir kvörtun eigenda sinna:
„Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, ræðir veiðigjöld í pistli á vef samtakanna og bendir á að þau voru hækkuð með breytingum á lögum í fyrra. Hún segir að borið hafi á því að staðhæft hafi verið að veiðigjaldið hafi lækkað með þessum aðgerðum, en það sé fjarri sanni.
Heiðrún bendir á hver áhrifin af breytingunni hafi verið í krónum talið fyrir greinina: „Áætlað er að veiðigjald muni nema um sjö milljörðum króna á árinu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að gjaldið nemi einnig um sjö milljörðum á næsta ári. Ef eldri lög um veiðigjald hefðu haldið gildi í stað þeirra breytinga sem urðu síðastliðinn vetur, hefði veiðigjaldið orðið tveir og hálfur milljarður króna á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðigjald er því áætlað tæplega þrisvar sinnum hærra en það hefði orðið samkvæmt eldri lögum. Allt tal um að veiðigjald hafi verið lækkað vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum er því augljóslega rangt.“
Þá nefnir hún að arðgreiðslur í sjávarútvegi hafi verið mun lægri en í atvinnulífinu í heild. Þannig hafi arðgreiðslur í sjávarútvegi numið 27% af hagnaði, í atvinnulífinu að sjávarútvegi undanskildum hafi þetta hlutfall verið 40%.
Sjávarútvegurinn á í harðri alþjóðlegri samkeppni og þarf ekki á því að halda – ekki frekar en aðrar útflutningsgreinar – að sæta sérstakri skattheimtu.“