- Advertisement -

35.000 tonn af ferskum fiski

Sjávarútvegur „Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fluttu út tæplega 35.000 tonn af ferskum flökum og bitum á árinu 2014 fyrir 38,5 milljarða króna samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands,“ segir á heimasíðu Sjávarklasans.

Þar segir einnig að fimm bolfisktegundir séu nýttar í framleiðsluna af einhverju ráði, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi, karfi og steinbítur en þetta eru jafnframt þær bolfisktegundir sem mest veiðist af hér á landi á hverju ári, að steinbíti undanskildum. „Milli áranna 2000 og 2014 jókst útflutningsverðmæti ferskra afurða úr þessum fimm tegundum úr tæplega 11 milljörðum króna í 37 milljarða króna. Mikilvægustu markaðirnir fyrir afurðirnar eru Frakkland, Bretland, Belgía og Bandaríkin.“

SjóararFimmföldun í útflutningi ferskra þorskafurða

„Þorskur er fyrirferðarmesta tegundin í þessari framleiðslu en gríðarleg aukning hefur orðið á útflutningi ferskra þorskflaka og bita á síðastliðnum 15 árum. Á milli áranna 1999 og 2014 óx útflutningurinn úr 4.940 tonnum í 23.245 tonn og útflutningsverðmætin úr 5,8 milljörðum króna í 28 milljarða króna. Fersk flök og bitar verða sífellt stærri hluti verðmætasköpunar úr þorski, en á sama tímabili óx hlutur þeirra úr 6% í 31% af útflutningsverðmætum allra þorskafurða. Það samsvarar fimmföldun á 15 árum. Það hlutfall sem ferskar afurðir skapa af útflutningsverðmæti annarra tegunda hefur einnig aukist en árið 2014 voru 33% útflutningsverðmæta ýsu af ferskum afurðum, 13% karfa, 43% steinbíts og 10% ufsa,“ segir í fréttinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjöföldun til Frakklands á sex árum og vöxtur til Bandaríkjanna

„Frakkland er í dag langstærsti kaupandi ferskra íslenska sjávarafurða en þangað voru fluttar út ferskar þorskafurðir fyrir 12,6 milljarða króna árið 2014. Útflutningur ferskra afurða til Frakklands hefur aukist mjög hratt að undanförnu, sjöfaldast síðustu sex árin, úr 1.500 tonnum árið 2008 í u.þ.b. 10.000 tonn árið 2014. Mikilvægustu markaðslönd ferskra þorskafurða á eftir Frakklandi árið 2014 voru Bretland (4,8 ma. kr.), Belgía (4,5 ma. kr.) og Bandaríkin (3,2 ma. kr.).

Eftir mikinn samdrátt árin 2007-2011 hefur útflutningur ferskra þorskafurða til Bandaríkjanna aukist hratt undanfarin fjögur ár. Þar spila inn samdráttur í þorskveiðum á austurströnd Bandaríkjanna, bættir flutningar til Bandaríkjanna frá Íslandi og aukin framleiðsla ferskra afurða hér á landi. Smáir og stórir framleiðendur sjá nú tækifæri á Bandaríkjamarkaði en þar er stór og vaxandi kynslóð nýrra neytenda sem sækist eftir ferskri, hollri og sjálfbærri matvöru.“

Sjá nánar hér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: