- Advertisement -

Utanríkisstefnan er andstæð hagsmunum þjóðarinnar

Jón Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson. Jón Magnússon: „Þetta þvælist ekkert fyrir íslensku ríkisstjórninni, þrátt fyrir að mannréttindabrotin séu þau verstu í Evrópu og þeir víli ekki fyrir sér að fara með ófriði á hendur nágrannaríki og sölsa undir sig stór landssvæði.“

Jón Magnússon, lögmaður og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er gagnrýnin á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og utanríkisstefnu Íslands.

Jón skrifar:

Sama dag og Erdogan einræðisherra sölsaði undir sig nánast allt vald í kosningum, sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu gagnrýnir harkalega, undirritaði utanríkisráðherra sérstakan fríverslunarsamning við Tyrki þar sem mælt er með aukinni samvinnu og vináttu þjóðanna.

Erdogan hefur fangelsað tugi þúsunda blaða og fréttamanna og gert út af við tjáningarfrelsið og prentfrelsið í landinu sem og rekið meir en hundrað þúsund opinbera starfsmenn. Þá hefur sölsað undir Tyrki stórt landsvæðí í Sýrlandi og ætlar sér að innlima það.

Þetta þvælist ekkert fyrir íslensku ríkisstjórninni, þrátt fyrir að mannréttindabrotin séu þau verstu í Evrópu og þeir víli ekki fyrir sér að fara með ófriði á hendur nágrannaríki og sölsa undir sig stór landssvæði.

Á sama tíma bannar þessi sama íslenska ríkisstjórn, forseta lýðveldisins að sinna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að sitja í heiðursstúku þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu keppir í fyrsta skipti á heimsmeistaramóti í knattspyrnu og veita strákunum okkar stuðning.

Forseti Íslands og forsætisráðherra. Jón Magnússon: „Það var ömurlegt að horfa á þau Katrínu Jakobsdóttur og Guðna Th. Jóhannesson eins og tvo niðursetninga á Hrafnseyri við Arnarfjörð, norpandi fyrir framan sjónvarpsskjá við að horfa á landsleikinn við Argentínu. Þetta þurfti Guðni Th. að þola allt vegna þeirrar fáránlegu utanríkisstefnu Íslands að troða illsakir við Rússa að fyrirskipun Evrópusambandsins.“

Það var ömurlegt að horfa á þau Katrínu Jakobsdóttur og Guðna Th. Jóhannesson eins og tvo niðursetninga á Hrafnseyri við Arnarfjörð, norpandi fyrir framan sjónvarpsskjá við að horfa á landsleikinn við Argentínu. Þetta þurfti Guðni Th. að þola allt vegna þeirrar fáránlegu utanríkisstefnu Íslands að troða illsakir við Rússa að fyrirskipun Evrópusambandsins.

Þessi utanríkisstefna sem felur í sér viðskiptastríð við Rússa veldur íslensku þjóðinni milljarðatjóni árlega og miklu tekjutapi bænda og sjómanna. Afsökunin er að Rússar virði ekki mannréttindi og hafi innlimað Krímskagann skv. vilja mikils meirihluta íbúa þar. Á sama tíma semur þessi sama ríkisstjórn við Tyrki sem virða engin mannréttindi og hafa innlimað landssvæði í Sýrlandi í blóðugri styrjöld gegn íbúunum.

Hagsmunir okkar af viðskiptum við Tyrki eru nánast engir, en miklir við Rússa. Hvaða glóruleysi er þá þessi utanríkisstefna.

Í hvers þágu starfar utanríkisþjónustan? Fyrir íslendinga eða fer hún eftir dyntum Angelu Merkel og Evrópusambandsins.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: