Leiðari Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, gekk of langt. Hann neitaði Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Samgönguráðherrann, Jón Gunnarsson, steig á tær Þórólfs og ógilti ákvörðun hans. En það er ekki allt.
Herútkall hefur verið gefið út.
„Samgönguráðherra felldi í gær úr gildi þá ákvörðun Samgöngustofu að veita ekki undanþágu fyrir siglingar ferjunnar Akraness á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja um komandi helgi. Ferjan siglir samkvæmt áætlun á milli Reykjavíkur og Akraness, en Samgöngustofa taldi af og frá að hún sigldi eina helgi áætlunarferðir á milli lands og Eyja. Sú ákvörðun var undarleg og rökstuðningurinn ósannfærandi þannig að ákvörðun ráðherra þurfti ekki að koma á óvart.
En það er fleira sem vakið hefur furðu í starfsemi Samgöngustofu að undanförnu, einkum hægagangur í afgreiðslu á skráningu nýrra bifreiða. Eðlilegt væri að ráðherra færi rækilega yfir starfsemi stofnunarinnar og legði mat á hvort að ekki væri hægt að haga henni þannig að hún þjónaði landsmönnum betur en verið hefur.“
Hér þarf ekki að lesa á milli línanna. Skýrar þarf ekki að tala. Textinn hér að ofan er sóttur í leiðara Morgunblaðsins, skrifaður af Davíð Oddssyni. Í frétt Morgunblaðsins, framar í blaðinu, segir að Þórólfur segist vera í útlöndum. Tónninn er skýr og tær.
Hversu lengi verður Þórólfur forstjóri Samgöngustofu?
Sigurjón M. Egilsson.