„Og í gær, miðvikudag, þótt langt sé í helgi, þá birtist óvenjulegur lofsöngur í ritstjórnargrein um Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem sögð var mestur hvalreki sem skolað hefði á fjörur verkafólks um árabil,“ skrifar Davíð Oddsson í Staksteina dagsins. Allt annað en glaður með lífið. Reyndar mikið pirraður.
„Sá hvalreki var áður frægastur fyrir að vanhelga Alþingi með skrílslátum þar og birtast svo í framhaldinu með hóp upphlaupsmanna til að gera hróp að dómstólum til að tryggja að hvalrekinn þyrfti ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum,“ skrifar Davíð en sleppir að geta þess að Sólveig Anna var ekki dæmd til ævilangrar fangavistar eins og „fyrirmennin“ kröfðust.
„Fordæmt var í leiðaranum droll í ráðuneytum, sem Sólveig Anna hefði réttilega steytt hnefa gegn og ekki síður hitt að skjaldborg hefði verið slegin um atvinnurekendur í varnarbaráttu gegn veirunni, eins og gert er um allan heim,“ skrifaði Davíð í eigin pirringi.
Og svo sneið að Fréttablaðinu. „Þetta eru óneitanlega ný og afgerandi skilaboð frá fríblaðinu.“
Staksteinar skemmta öllum nema höfundi þeirra.