Úr nöldurhorni Moggans
„Sú stund hlýtur að vera runnin upp að stjórnvöld höggvi á hnútinn,“ segir í Staksteinum Moggans í dag. Horft er til ríkisvaldsins um að það gangi erinda millljónafólksins og stöðvi réttláta lífsbaráttu þess fólks sem verst er sett á vinnumarkaði. Ekki stórmannlegt þetta.
„Nú er hafin vika sem getur haft verulega efnahagslega þýðingu fyrir þjóðina. Verkföll Eflingar halda áfram og búast má við að þau breiðist út, en þó þannig að þau kosti vinnudeilusjóð Eflingar sem minnst en valdi atvinnulífinu sem mestu tjóni,“ segir í nöldurhorni Moggans.
Þarna látið sem það sé undrun að Efling láti ekki vinnuveitendur ráða hversu mikið er borgað. Þá myndi vinnudeilusjóðurinn tæmast á augnabliki. Efling hefur ekki aðgang að öðru en sjálfu sér. Von er að Moggastjórinn fatti þetta ekki. Hann situr í fyrirtæki sem hefur ógrynni skulda afskrifaðar.
„Í vikunni hefst líka verkbann, sem er gert til mótvægis við hin óeðlilega skaðlegu skæruverkföll Eflingar, en verkbannið hefur ASÍ ákveðið að kæra til Félagsdóms og er það ekki eina málið sem tekist er á um fyrir dómstólum í þessari hörðu deilu,“ segir nöldrarinn.
Svo er það ákall til ríkisstjórnarinnar:
„Nú er komið að því að grípa verður inn í. Ein leið væri miðlunartillaga, en það hefur lítinn tilgang því að Efling neitar að leyfa félagsmönnum sínum að kjósa. Nema mögulega ef miðlunartillagan væri forystu Eflingar að skapi, en slíkt skilyrði væri óviðunandi. Fólk sem ekki vill leyfa kosningar getur ekki fengið að halda efnahagslífi Íslands í heljargreipum. Sú stund hlýtur að vera runnin upp að stjórnvöld höggvi á hnútinn.“