- Advertisement -

Uppsagnir í framhaldi verkfalla?

Atvinnurekendur mega ekki hlutast til um þátttöku starfsmanna í vinnu stéttarfélaga með uppsögn úr vinnu eða hótunum um uppsögn.

Frétt frá Eflingu:

Efling harmar hópuppsögn 59 starfsmanna Kynnisferða. Stærstur hluti þeirra eru hópbifreiðastjórar sem starfa undir kjarasamningi Eflingar. Félagið hefur fylgst náið með framvindu málsins og gætt hagsmuna félagsmanna Eflingar vegna uppsagnanna, bæði svo félagsmönnum Eflingar sé ekki sagt upp á undan öðrum starfsmönnum, og að uppsagnir séu ekki látnar beinast sérstaklega að virkum félagsmönnum.

Á þriðjudag og fimmtudag sátu trúnaðarmenn og starfsmenn Eflingar fundi með fulltrúum fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins. Formaður og framkvæmdastjóri Eflingar voru auk þess viðstaddir starfsmannafund í höfuðstöðvum fyrirtækisins síðdegis á fimmtudag þar sem uppsögnin var tilkynnt.

Starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkföll, sinnt verkfallsvörslu og verið í eldlínunni í kjarabaráttu á margvíslegan hátt.

Fulltrúar Eflingar hafa á þessum fundum ítrekað lýst þungum áhyggjum við forsvarsmenn Kynnisferða af því að efnt sé til hópuppsagna á sama tíma og hörð kjaradeila stendur yfir. Verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar í fyrirtækinu, bæði meðal rútubílstjóra frá síðasta föstudegi og hjá strætóbílstjórum félagsins frá og með næstkomandi mánudegi. Starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkföll, sinnt verkfallsvörslu og verið í eldlínunni í kjarabaráttu á margvíslegan hátt.

Atvinnurekendur mega ekki hlutast til um þátttöku starfsmanna í vinnu stéttarfélaga með uppsögn úr vinnu eða hótunum um uppsögn. Þetta er ljóst af fjórðu grein laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Fulltrúar Eflingar hafa hvatt trúnaðarmenn og starfsmenn Kynnisferða til að leita aðstoðar félagsins ef þeir telja að óeðlilegar ástæður geti legið að baki uppsögn þeirra. Við ítrekum að kjaramálasvið Eflingar þjónustar alla félagsmenn vegna krafna eða ágreinings um vangoldin laun.

Efling hefur haldið mjög á lofti 6. grein kjarasamningsins við SA, um forgangsrétt Eflingarmeðlima til starfanna sem samningurinn nær til. Þegar verkföll Eflingar og VR voru í þann mund að hefjast básúnuðu Kynnisferðir þeirri staðreynd að hjá fyrirtækinu störfuðu bílstjórar sem væru skráðir í önnur stéttarfélög, eða engin, og að þeim væri frjálst að brjóta verkfallið. Ljóst er að þessir einstaklingar geta ekki notið forgangs þegar kemur að hópuppsögn. Efling og VR hafa áréttað sameiginlegan skilning sinn á þessu ákvæði kjarasamningsins við Kynnisferðir.

Efling ítrekar, eftir sem áður, að öllum sem það vilja er frjálst að hafa samband við skrifstofu félagsins til að leiðrétta félagsaðild sína.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: