Það hefur hver sinn háttinn á. Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands mun ekki sækjast eftir endurkjöri á þingi sambandsins í haust. Hann hefur svo sem ekki sagt það beinum orðum en nýjasta tillegg hans, það er auglýsing þar sem hann gerir allt sem hægt er, til að gera sem minnst úr þeirri kynslóð verkalýðsforingja sem hafa tekið við í stærstu verkalýðsfélögum landsins. Gylfa tókst vel til. Efling, með Sólveigu Önnu Jónsdóttir í forsvari, hefur mótmælt Gylfa og auglýsingunni af miklu afli.
Gylfi sá og sér sæng sína upp reidda. Hann veit að hann á enga samleið með yngra fólkinu, næstu kynslóð, fólkinu sem hefur komist til valda. Ekki síst vegna þess að það fólk hefur sagt sig vera annarra skoðunar en Gylfi Arnbjörnsson. Með auglýsingunni gerði Gylfi tvennt. Hann æsti leikinn og skrifaði eigin grafskrift. Feitu letri.
Það hefur hver sinn háttinn á. Sumir hætta í friði aðrir ekki. Gylfi er í seinni hópnum. Hvað sem hverju og einu okkar kann að þykja um Gylfa Arnbjörnsson efast ekki ein einasta manneskja um að hann lét gera eða samþykkti auglýsinguna ekki óvart. Eins vissi hann að hún kallaði fram hörð viðbrögð, sem hafa þegar komið fram.
Gylfi hefur greinilega tekið ákvörðun. Hann sækist ekki eftir endurkjöri sem forseti Alþýðusambands Íslands. Ekki þarf lengur að efast um að breytingarnar í verkalýðsforystunni eru rétt að byrja. Sigurjón M. Egilsson.