„Úr Framsóknarflokknum berast nú þær fréttir, að grasrótin þar sé að rísa upp gegn Orkupakka 3 ekki síður en í Sjálfstæðisflokknum. Einn virkur flokksmaður hefur lýst andrúmsloftinu innan flokksins á þann veg, að þar sé allt logandi vegna málsins.“
Þetta má lesa á styrmir.is, vefsíðu Styrmis Gunnarssonar. „Þetta kemur ekki á óvart. Auðvitað er framsóknarmönnum ljósara en öðrum hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir fylgi flokksins, standi þingmenn hans að samþykkt orkupakkans á Alþingi á sama tíma og þingmenn Miðflokksins greiði atkvæði gegn,“ skrifar Styrmir.
Styrmir, sem berst hart gegn samþykkt þriðja orkupakkans, bendir á þetta:
„Það er jafnframt gagnlegt fyrir forystusveitir beggja þessara flokka að fylgjast vel með úrslitum sveitarstjórnarkosninga, sem fram fóru á Englandi og Norður-Írlandi í gær, fimmtudag. Í morgun var orðið ljóst að Íhaldsflokkurinn hafði tapað um 400 fulltrúum í sveitarstjórnum og spár bentu til að þeir gætu tapað um 800 fulltrúum, sem teldist afhroð. Ástæðan er meðferð flokksforystunnar á útgöngunni úr ESB.“
„Verkamannaflokkurinn er líka að tapa fylgi en Frjálslyndir að vinna á. Kosningar til Evrópuþingsins verða innan skamms og Bretar taka þátt í þeim vegna frestunar á útgöngu. Kannanir benda til enn verri útreiðar Íhaldsflokksins þar,“ skrifar Styrmir og bendir svo á:
„Uppreisn grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokki og Framsókn vegna Orkupakka 3 á sér áþekkar skýringar.“