- Advertisement -

Upplýsingaleynd Airbnb gaf leigusölum leið til að stundað skattlausa samkeppni

Ekki er bara við leigusalana að sakast sem þarna græddu á aðgerðaleysi forystufólks sveitarfélaganna.

Þórir Garðarsson skrifar:

Samkvæmt þessari frétt sem birtist í dag má gera ráð fyrir að sala Airbnb af gistingu hér á landi hafi verið um 32 milljarðar króna á þremur uppgangsárum ferðaþjónustunnar 2015, 2016 og 2017. Það er því ekki seinna vænna en að skattyfirvöld taki á sig rögg gagnvart sölun í gegnum Airbnb og annarra sambærilegra söluvefja. Það hefur alla tíð verið ljóst að þessi starfsemi var að skila litlum eða engum sköttum til samfélagsins og skekktu samkeppnisstöðuna á markaðnum.

Í fyrsta lagi hefur Airbnb og aðrir söluvefir sem selja á neytendamarkaði og taka við greiðslu frá kaupandanum komist upp með að innheimta ekki virðisauka- og gistináttaskatt, líkt og hótel og gististaðir þurfa að gera. Ríkisskattstjóri hefur verið mjög linur í þessum efnum og sett kíkinn fyrir blinda augað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En stóra fréttin er auðvitað hvað þetta eru mikil umsvif sem skattrannsóknarstjóri hefur náð að fá upplýst með aðstoð dómstóla á Írlandi. Þarna kemur fram að 30% leigusala hjá Airbnb hafi verið með 80% af tekjum áranna þriggja, eða 25 milljarða króna. Ef við gefum okkur að virkir leigusalar hafi verið 2.500 að meðaltali, þá eru 30% þeirra 750 talsins. Meðaltekjur hafa þá verið 33 milljónir króna. Með hjálp upplýsingaleyndar Airbnb gátu þessir leigusalar stundað skattlausa samkeppni við alla aðra gististarfsemi. Ekki er að efa að margir þeirra hafa fengið hland fyrir hjartað við að sjá þessa frétt um aðgerðir skattrannsóknarstjóra.

Flestir Airbnb leigusalar hafa ekki bara komist undan innheimtu á virðisaukaskatti og gistináttaskatti eða skilum á tekjuskatti, heldur reyndu sveitarfélögin almennt ekki að innheimta fasteignagjöld með sama hætti og af annarri atvinnustarfsemi. Þar urðu þau af gríðarlegum tekjum, vegna þess að fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði eru áttfalt hærri en af íbúðarhúsnæði. Ekki er bara við leigusalana að sakast sem þarna græddu á aðgerðaleysi forystufólks sveitarfélaganna.

En allt ber þetta að sama brunni, að auðvitað er óeðlilegt að Airbnb, seljandi gistiþjónustunnar til neytenda, skuli ekki annast innheimtu og skil á virðisauka- og gistináttaskatti líkt og innnlendir seljendur gistiþjónustu þurfa að gera. Airbnb var að selja gistiþjónustu á Íslandi fyrir 10 milljarða króna á ári og var ekki að innheimta skatta af þeirri sölu. Hvernig í ósköpunum geta skattyfirvöld verið svona sofandi?

Að sjálfsögðu átti Airbnb, sem seljandi þjónustunnar á neytendamarkaði einnig að veita skattyfirvöldum upplýsingar um tekjur hvers og eins leigusala. Þannig hefðu hótel og gistihús verið jafnsett Airbnb útleigu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: