- Advertisement -

Upplifi mig sem algjöran lúser

- að eiga ekki þak yfir höfuðið, segir Helga Snædal.

Gunnar Smári skrifar: „Ég upplifi mig stundum sem algjöran lúser, ég er búin að vinna úti hálfa ævina en á ekki einu sinni þak yfir höfuðið, bara skuldir,“ segir Helga Snædal, sem leigir rúmgóða blokkaríbúð á Reyðarfirði af Heimavöllum, ásamt Sólveigu, sjö ára dóttur sinni, Eldri dóttirin, Aðalbjörg, er nítján ára og flutt að heiman, leigir herbergi upp á Egilsstöðum og er komin út á vinnumarkaðinn. Helga er í ágætu starfi hjá bænum, þokkalegu millistéttarstarfi og húsaleigan eftir húsaleigubætur er ekki mjög íþyngjandi. „En ég er föst hérna, get lítið lagt fyrir og hef ekki efni á að flytja suður og taka að mér betur launað starf.“

Það eru 1650 krónur

Í fyrra sótti Helga um starf fyrir sunnan og fékk það. Hún segir að þetta hafa verið draumastarf fyrir sig, hefði nært sig og hentað fullkomlega. Og launin voru meira en 100 þúsund krónum hærri en hún hefur í dag. „Þegar ég hafði sest niður og reiknað dæmið til enda kom í ljós að ég hafði ekki efni á þessu starfi,“ segir Helga. „Húsaleigan fyrir sunnan er hærri og þar sem ég hefði hækkað í launum hefði ég misst húsaleigubætur og barnabæturnar hefðu lækkað, endurgreiðslan til lánasjóðsins hefðu hækkað líka. Mér reiknaðist til að þegar ég væri búin að borga húsaleiguna, skuldirnar og dagvist fyrir dóttur mína hefðum við mæðgur 50 þúsund krónur til að lifa af út mánuðinn. Það eru 1650 krónur á dag. Ég myndi ekki treysta mér til að lifa af því ein, hvað þá ein með tvö börn,“ segir Helga.

Að sinna sínu eigin basli

Þú gætir haft áhuga á þessum
Helga: „Ég tók námslán til að eiga fyrir náminu mínu og þegar ég keypti mér íbúð fyrir sunnan tóku mamma og pabbi lífeyrissjóðslán til að lána mér fyrir útborguninni.“

Helga er að austan, fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði. Foreldrar hennar eru verkafólk og hafa stutt hana alla tíð. En af veikum mætti. „Þegar ég var í skóla fór ég austur til að vinna og bjó hjá þeim,“ segir Helga, „en þau eru íslenskt alþýðufólk sem átti fullt í fangi með að sinna sínu eigið basli. Ég tók námslán til að eiga fyrir náminu mínu og þegar ég keypti mér íbúð fyrir sunnan tóku mamma og pabbi lífeyrissjóðslán til að lána mér fyrir útborguninni.“

Þetta var lítil blokkaríbúð í Grafarvogi, án alls íburðar, kostaði um 18 milljónir króna. Þetta var árið var 2007. Helga var nýútskrifaður viðskiptafræðingur frá Bifröst í góðu starfi, vann sem millistjórnandi hjá ágætu fyrirtæki. Lífið var gott, það brosti við Helgu og Aðalbjörgu dóttur hennar. Svo kom Hrunið og lánin stökkbreyttust, ekki bara húsnæðislánin heldur líka námslánin. Helga hafði vel ráðið við afborganir fyrir Hrun en nú voru þær íþyngjandi, allt sem hún aflaði fór í að fóðra lánin og komast af.

Skuldaði ég 3,5 milljónir í námslán

Um þetta leyti kynntist Helga manni, Veigari Grétarssyni, hann átti son og svo varð Helga ólétt; fjölskyldan stækkaði. Veigar var einn margra í meðferð hjá umboðsmanni skuldara og það bætti ekki stöðuna, flækti hana nokkuð og fækkaði valkostum. Um áramótin 2012 ákváðu þau að gefast upp fyrir lánunum, selja íbúðina og flytja til Noregs. Helga losnaði við skuldirnar við bankann en sat uppi með lífeyrissjóðslán foreldra sinna. Og svo auðvitað námslánin. „Þegar ég lauk námi 2006 skuldaði ég 3,5 milljónir í námslán en þarna um áramótin 2011/2012 var skuldin komin upp í 5,5 milljónir,“ segir Helga. Í dag, tólf árum eftir að hún lauk námi, er skuldin við LÍN um 4 milljónir króna.

Með milljón á mánuði

Helga fékk frábært starf í Noregi, vann hjá olíufélagi og var með um milljón íslenskra króna á mánuði á þáverandi gengi. „Þá voru til nógir peningar eftir til að senda heim til að borga skuldir,“ segir Helga. Og margt gekk vel í Noregi, fjölskyldan bjó í Drammen, kynntust mörgu góðu fólki og hafði það miklu betur efnahagslega. En Aðalbjörg var ekki á góðum aldri, þrettán ára. Þetta er viðkvæmur aldur félagslega, mörg börn upplifa eins og þau séu slitin upp með rótum og fleygt inn í aðstæður sem þau ráða illa við; mæta vegg í nýju umhverfi þar sem vinahópar eru fullmótaðir og lítið pláss fyrir feimið barn sem getur varla tjáð sig almennilega. Það varð úr að Aðalbjörg flutti heim til föður síns á Reyðarfirði. Þetta var þungbært fyrir Helgu. En svo reið annað áfall yfir. Veigar tilkynnti henni að hann ætlaði í kynleiðréttingu og Helga var skyndilega lent í tilfinningalegum stormi og persónulegri klemmu, niðurstaðan varð sú að þau hjónin skildu og Helga flutti heim til að búa dætrum sínum heimili, ná saman fjölskyldu. Hún fékk vinnu á Fáskrúðsfirði en fann enga íbúð, flutti með dæturnar heim til mömmu. Og sökkti sér í vinnu með allt á hvolfi inn í sér og brann upp, var föst inn í blindgötu, keyrði á vegg og gat ekki meir.

Helga: „Ég var svikin af lífinu og samfélaginu en fannst ég heil og velkomin þegar ég lét náttúruna halda utan um mig.“

Svikin af lífinu

„Ég var á atvinnuleysisbótum í sex mánuði, en hefði líklega haft gott af því að vera lengur utan vinnumarkaðar. Ég var svo útbrunnin og kulnuð,“ segir Helga. „Ég náði mér saman með því að ganga, horfa á hafið og finna fyrir fjöllunum. Mér fannst sem náttúran væri að lækna mig. Ég var svikin af lífinu og samfélaginu en fannst ég heil og velkomin þegar ég lét náttúruna halda utan um mig.“

Hugsar til Norðurlandanna

Eftir þessa náttúrumeðferð sótti Helga um vinnu á Reyðarfirði og fékk, flutti með dæturnar í blokkaríbúðina sem þær búa í í dag. Þar líður þeim vel, en Helga upplifir sig fasta og lokaða inni. Hún hefur ekki efni á að flytja suður til Reykjavíkur til að taka við betur launuðu starfi. Hún segist aldrei getað safnað sjö milljónum króna fyrir útborgun í íbúð. Þegar hún veltir framtíðinni fyrir sér hugsar hún til Norðurlandanna, skoðar reglulega ráðningasíður þaðan og veit að hún og dæturnar myndi plumma sig miklu betur þar.

Vilja ekki snúa aftur

„Þeir Íslendingar sem við kynntumst í Noregi voru nær allir stórskaðaðir af húsnæðismarkaðnum á Íslandi,“ segir Helga. „Og fæst sögðust vilja snúa aftur. Til hvers? Þau höfðu kynnst samfélagið sem var svo miklu fjölskylduvænna, þar sem fólk vann minna en hafði hærri laun, þar sem húsaleiga var lægri og vextir af lánum miklu miklu lægri. Það eru námsstyrkir í Noregi svo fólk dregur ekki námslánin á eftir sér ævina á enda. LÍN segir að ég verði orðin 65 ára þegar ég hef greitt niður mín námslán. Almenningur í Noregi fer ekki skuldugur inn á eftirlaunaaldurinn. Þau sem kaupa húsnæði eru flest búin að greiða lánin niður fyrir fimmtugt.“

Áföllin deildust ekki jafnt yfir alla.

Helga er af þeirri kynslóð sem kom verst út úr Hruninu. Þetta er foreldrakynslóðin 2008, fólk sem þá var á aldursbilinu 25 til 45 ára. Auðvitað var líka elda fólk og yngra sem fór illa út úr Hruninu, en stærsti hópurinn tilheyrði foreldrakynslóðinni. Þetta var fólkið sem skuldaði mest, hafði keypt sitt húsnæði skömmu fyrir Hrun, skuldaði námslán, var með lægri laun en þau sem höfðu verið lengur á vinnumarkaði, þurfti að borga dagvist fyrir börnin og rak þyngri heimili og hafði engar aðstæður til að mæta jafn grimmum efnahagslegum áföllum og Hrunið lét dynja á þeim. Og áföllin deildust ekki jafnt yfir alla. Þau sem gátu leitað til foreldra um fjárhagslegan stuðning gátu mörg hver fundið leið í gegnum skaflinn. Þau sem voru komin af venjulegu alþýðufólki, fólki sem hafði þrælað alla æfi en uppskorið lítið, höfðu færri bjargir. „Þegar við erum fyrir sunnan keyrum við oft fram hjá blokkinni í Grafarvogi þar sem við áttum okkar litlu íbúð. Við Aðalbjörg horfum á blokkina og dæsum, hún minnir okkur á lífið sem við áttum áður en lífið varð erfiðara,“ segir Helga. „Auðvitað ættum við ekki að sjá svona einfalt líf í hillingum. Við eigum rétt á að lifa einföldu lífi í friði og öryggi, eins og allt fólk. Og auðvitað ætti ég að geta stutt Aðalbjörgu betur. Ég er viss um að ef ég hefði getað hjálpað henni meira væri hún enn í skóla.“

10 prósent fjölskyldna misstu heimili

Þar sem mestu áföllin réðu yfir barnafjölskyldurnar má vera að fimmta hvert barn, jafnvel fjórða hvert barn, hafi tilheyrt fjölskyldum sem misstu heimili sitt eftir Hrun.

Um níu þúsund fjölskyldur misstu íbúðir sínar á nauðungaruppboð eftir Hrun. Og því til viðbótar ákváðu margar fjölskyldur að selja íbúðir sínar á lágu verði til að losna undan skuldunum og komast burt, eins og Helga gerði. Varlega áætlað má ætla að um 10 prósent heimila hafi misst heimili sín eftir Hrun. En þar sem mestu áföllin réðu yfir barnafjölskyldurnar má vera að fimmta hvert barn, jafnvel fjórða hvert barn, hafi tilheyrt fjölskyldum sem misstu heimili sitt eftir Hrun.

Við erum gleymdur hópur,

„Við erum gleymdur hópur, það er sjaldan minnst á okkur í umræðunni,“ segir Helga. „Stjórnmálafólk talar um ungu kynslóðina sem getur ekki flutt af heiman og leggur til að þau séu studd til að kaupa sína fyrstu íbúð. Auðvitað á að gera það. En ég man ekki til þess að nokkur hafi lagt til stuðning við okkur sem áttum íbúð en misstu hana eftir Hrunið.“

Stórskuldug inn í elliárin

Og þessi áföll fylgja þessari kynslóð. „Ef ég reyndi að kaupa mér íbúð í dag yrði ég enn skuldug þegar ég færi á eftirlaun. Og þar sem ég ætti aldrei efni á öðru en fjörutíu ára jafngreiðsluláni, svokölluðu Íslandsláni, myndi ég borga vexti og verðbætur allan tímann án þess að höfuðstólinn lækkaði að ráði. Ég myndi koma stórskuldug inn í elliárin og ætti varla eitt herbergi í íbúðinni.“

Helga: „Það er því ekki að furða þótt ég sé að undirbúa mig andlega undir að flytja burt og byrja upp á nýtt í nýju landi. Það má segja að þau sem stjórna Íslandi séu að taka þá ákvörðun fyrir mig.“

Byrja upp á nýtt í nýju landi

Helga er allt of ung til að kvíða ellinni, en eins og mörg af hennar kynslóð hefur þeim kvíða verið þröngvað upp á hana. „Og ekki er þægilegra að hugsa til eftirlaunaáranna og vera enn leigumarkaðnum,“ segir Helga. „Það er því ekki að furða þótt ég sé að undirbúa mig andlega undir að flytja burt og byrja upp á nýtt í nýju landi. Það má segja að þau sem stjórna Íslandi séu að taka þá ákvörðun fyrir mig.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: