Katrín hefði getað rutt brautina strax.
„Það eru fjórir þingmenn Vinstri grænna sem standa að þessari þingsályktunartillögu og eins og við þekkjum þá er ríkisstjórnin undir forsæti sama flokks,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki þegar rætt var þingsályktunartillaga un endurskoðun laga sem varða uppkaup jarða.
„Ég hefði því talið að það hefði verið tiltölulega auðvelt fyrir Vinstri græna að bregðast skjótt við þessu mikilvæga máli með lagasetningu. Forsætisráðherra hefði getað rutt brautina strax og tekið á málinu. Nú hafa Vinstri grænir haft verkstjóravaldið í ríkisstjórninni í 15 mánuði og ekkert gert í því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila á jörðum. Á sama tíma hafa stórar jarðir fallið í hendur erlendra aðila sem ekki vilja byggja landið,“ sagði Birgir.
Ólafur Þór Gunnarsson VG sagði: Það sem er hins vegar hættulegt, að mínu viti, eða a.m.k. mjög varhugavert er að heilu kippurnar af jörðum, jafnvel samliggjandi jarðir í sömu fjórðungum séu hreinlega teknar út úr búrekstri, séu hreinlega teknar út úr byggð í rauninni og aðgangur að þeim og þeim gæðum sem þeim fylgja verulega takmarkaður fyrir allan almenning. Það er ekki ásættanlegt. Þá erum við farin að tala um þrengingu almannaréttar með tilliti til umgengni og annars í raun.“
„Vilji er allt sem þarf í þessum efnum og það er skylda stjórnmálamanna að standa vörð um landið. Tilvera okkar sem þjóðar er landinu að þakka,“ sagði Birgir.
Hann sagði þingsályktunartillöguna vera vel unna: „Henni fylgir ítarleg greinargerð sem töluverð vinna liggur greinilega að baki. Þarna er ýmis fróðleikur um löggjöf nágrannalandanna eins og í Danmörku og Noregi, þetta er vel unnið, eins og ég segi, og það er þakkarvert. Tilgangurinn með henni er að fela ríkisstjórninni að undirbúa endurskoðun laga og reglugerða um uppkaup á bújörðum og öðru nytjalandi, svo og óbyggðum. Markmiðið verði að setja skýrar reglur sem miði að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila á bújörðum sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu hér.“