- Advertisement -

Uppgjörið við nýfrjálshyggjuna er ekki aðeins efnahagslegt heldur pólitískt

Ólafur er ekki róttækur sósíalisti, það mætti kalla hann borgaralegan fréttaskýranda.

Gunnar Smári skrifar:

Ólafur Sigurðsson fréttamaður skrifar um dauða nýfrjálshyggjunnar og þann stórkostlega vanda sem hún skilur eftir, ekki bara ójöfnuð og misrétti heldur ónýt stjórnmál og brotið traust í samfélaginu. Ólafur er ekki róttækur sósíalisti, það mætti kalla hann borgaralegan fréttaskýranda. En greining hans á eyðileggingu nýfrjálshyggjunnar er ekkert svo fjarri því sem haldið hefur verið á lofti í þessum hópi mörg undanfarin ár. Og ástæða er auðvitað sú að eyðilegging nýfrjálshyggjunnar er óumdeild staðreynd; umræðan ætti að snúast um hvað við ætlum að gera gagnvart henni. Ólafur leggur til leið Franklin D. Roosevelt, að stokka og gefa upp á nýtt og jafnara að þessu sinni; New Deal, sem getur orðið grunnur að samfélagi meiri jöfnuðar, traust og almennrar velmegunar. Sjálfsagt gætu margir sósíalistar tekið undir það sem gott fyrsta skref, vitandi að New Deal gekk ekki nógu langt því á endanum náði auðvaldið alræðisvaldi aftur. Við þurfum því að gera eitthvað öðruvísi næst.

En íslensk stjórnmálaumræða er ekki á þessum stað. Þar ríkir ekki bara afneitun á áhrif kapítalismans á umhverfið og loftslagið, heldur algjör afneitun á áhrif nýfrjálshyggjunnar á grunnstoðir samfélagsins. Allir þingflokkarnir eru sannfærðir um að þeirra hlutverk sé að finna lausnir sem auðvaldinu líkar, að lækna samfélagið í fullkomnu samráði við krabbameinið. Alþingi er þannig langt langt til hægri við borgaralega fréttaskýrendur í dag, langt hægra megin við meginstraumshagfræðina í dag og langt til hægri við fyrrum dómkirkjur nýfrjálshyggjunnar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD, The Economist, Financial Times og svona má lengi telja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nýfrjálshyggjan er gagnbylting hinna ríku.

Hvað veldur? Nýfrjálshyggjan gekk lengra á Íslandi en annars staðar í okkar heimshluta og þar með óligarkisminn sem henni fylgir, auðræði sem í reynd er þjófræði, þeir ráða sem komast yfir eignir, vald og auðlindir almennings. Stjórnmál langt genginnar nýfrjálshyggju eru svokölluð elítustjórnmál, þar sem valdaklíkur án grasrótartengsla til almennings (gömlu stéttarflokkarnir eru orðnir að flokkum sérfræðingastéttarinnar) keppast um að fá að stjórna landinu í kompaníi með hinum ríku, eina prósentinu.

Uppgjörið við nýfrjálshyggjuna er ekki aðeins efnahagslegt heldur pólitískt; það snýr að völdum í samfélaginu og hvar þau eiga að liggja (markmiðið er að hrekja auðvaldið frá völdum). Og það snýst um endurskilgreiningu á hlutverki stjórnmálafólks; nýfrjálshyggjan hélt að okkur elítustjórnmálum þar sem við áttum að fá að velja geðugustu kúgarana. Endursköpun stjórnmálanna verður að geta af sér virka stéttabaráttu sem miðar að því að ná völdum af auðvaldinu, stjórnmál þar sem 99 prósentin skilgreina eitt prósentið sem andstæðing.

Ef ykkur hugnast ekki slík átök, þá skulið þið líta yfir völlinn og sjá hverjir eru á fullu í stéttastríðinu. Nýfrjálshyggjan er gagnbylting hinna ríku, tímabil þar sem þau settu allt í sókn sína í stéttastríðinu en þar sem hreyfing almennings lagði niður vopnin. Warren Buffet orðaði það svo að vissulega væri stéttastríð í gangi, og bætti við: Mín stétt er að vinna.
Afleiðingar þessa eru nú öllum ljósar, ekki bara róttækum sósíalistum heldur borgaralegum fréttaskýrendum á borð við Ólaf Sigurðsson. Er ekki kominn tími til að stjórnmálaumræðan snúist um akkúrat þetta?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: