- Advertisement -

Uppgjöf í stjórnarskrármálinu

Ragnar Aðalsteinsson skrifaði:

„Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að stjórnarflokkarnir hafi gefist upp á þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem boðuð var við myndun ríkisstjórnar sömu flokka árið 2017. Þess í stað kveðst ríkisstjórnin ætla að fara þá ólýðræðislegu leið að leita til „sérfræðinga“ og „fræðasamfélagsins“ um endurskoðun á kjördæmaskipuninni og kosningum og reyndar einnig á reglum um dómstóla. Þegar „sérfræðingarnir“ og „fræðasamfélagið“ hafa kveðið upp sinn dóm kveðst ríkisstjórnin ætla að taka ákvörðun um framhaldið.

Þannig hyggst framkvæmdavaldið einoka stjórnarskrármálið og ekki hleypa öðrum að því, ekki einu sinni Alþingi.

Seint munu þessir valdhafar skilja að þeir sækja vald sitt til fólksins í landinu, sem fer með hið æðsta vald í öllum málum, enda þótt fólkið framselji hluta þess valds tímabundið með kosningum til Alþingis. Með þessu vanvirða valdhafarnir almannafullveldið og traðka á lýðræðinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Enn um stund verðum við að búa við stjórnarskrá sem tekur mið af allt annars konar samfélagi en því sem við nú byggjum eins og skýrt kom fram í nýliðinni kreppu vegna umdeildrar framkvæmdar á kosningum til Alþingis. Stjórnarskrá sem sett var án nokkurs samráðs við landsmenn af einvöldum útlendum konungi árið 1874.

Landsmenn eiga rétt á að setja sér sína eigin lýðveldisstjórnarskrá í krafti fullveldis síns en hin úrelta slitna flík sem við norpum undir á heima á eldinum. Vörpum henni á eldinn.

Landsmenn verða að finna leið til að heimta fullveldisrétt sinn, þar með talinn réttinn til að setja landinu stjórnarskrá, úr höndum gæfulausra riddara valdsins.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: