- Advertisement -

UPPÁ LÍF OG DAUÐA

Í þeim efnum á ekki að hika við ströngustu aðgerðir og við verðum að sætta okkur við þær.

Árni Gunnarsson skrifar:

Las í morgun grein um ýmsar afleiðingar Kórónaveirunnar, sem ekki er mikið rædd. Þar kom m.a. fram, að smitleiðir eru svo flóknar og margbreytilegar að erfitt er að henda reiður á smitleiðum og smitandi einstaklingum. Læknar og vísindamenn víða um heim óttast stökkbreytingar veirunnar, sem geri hana erfiðari viðfangs. Í Bandaríkjunum, og raunar víðar, hafa stórir hópar almennings gert lítið úr hættunni og krafist frelsis til ferðalaga, þátttöku í hópsamkomum, notkun á grímum og ekkert mark tekið á óskum lækna og vísindamanna um fjarlægðarmörk. Þeir visa jafnvel í stjórnarskrá um frelsi einstaklinganna til athafna.

Að vísu heyrist nú minna í þessu fólki, enda fara dánar- og smittölur ört hækkandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Margar harmsögur einstaklinga eru skelfilegar. Afi og amma, sem ásaka sig fyrir að hafa smitað börn og barnabörn, foreldrar, sem leyfðu börnum sínum að sækja kappleiki þar sem þau smituðust, eldri hjón og tvö uppkomin börn, sem öll létust. Öll trúðu þau orðum manna, sem lýstu plágunni sem venjulegri flensu.

Hér á landi hefur bærilega tekist að halda faraldrinum í skefjum. Hins vegar hafa stjórnendur heilbrigðismála reynt að fara bil beggja og ekki viljað herða aðgerðir um of.

En nú eru vírussmit að færast í aukana og nauðsynlegt að grípa til harðari aðgerða. Þessi barátta er hreinlega upp á líf og dauða. „Þessi vírus er alls staðar,“ segja margir vísindamenn. Það er því undir þjóðinni sjálfri komið hvernig til tekst um varnir. Í þeim efnum á ekki að hika við ströngustu aðgerðir og við verðum að sætta okkur við þær. Hver maður er ábyrgur gagnvart meðborgurum sínum og skeytingarleysi á þessum vettvangi er ófyrirgefanlegt. Við státum oft af því, að íslensk þjóð standi saman þegar vandi steðjar að. Nú er gott tækifæri til að staðfesta samstöðu gegn plágu, sem hótar öllum veikindum og jafnvel dauða.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: