- Advertisement -

Unglingurinn í fjölmiðlum

Opið bréf til Loga Bergmanns í tilefni síðasta pistils hans í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

frá Kára Stefánssyni

Logi, ég er rétt í þann veginn að verða sjötíu og eins árs að aldri og þegar ég lít til baka og spyr hvaða sjúkdómar hafi lagt að velli flesta af þeim samferðamönnum mínum sem eru horfnir á vit feðra sinna, og síðan hvað hafi helst komið í veg fyrir að samfélagið fengi notið þeirra hæfileika sem sumir skólafélaga minna sýndu af sér sem ungir menn og konur, þá er svarið við báðum spurningunum áfengi. Sumir fæðast með mikla tilhneigingu til þess að verða alkar en allir geta drukkið sig þangað. Vandamál einstaklinga og samfélagsins af völdum áfengis er í báðum tilfellum í réttu hlutfalli við það magn sem er drukkið og það er hafið yfir allan vafa að það magn sem er drukkið er í réttu hlutfalli við það hversu auðvelt er að nálgast það. Langtíma áhrif af ofneyslu áfengis eru auknar líkur á lifrarbilun, háþrýstingi, hjartabilun, krabbameini í vélinda, krabbameini í maga, krabbameini í lifur og brisi, krabbameini í blöðru og brjóstum og sykursýki og alls konar skemmdum í heila og úttaugakerfi. Skammtíma áhrif áfengisneyslu í óhófi er ölvun, sem eykur líkur á ofbeldi alls konar og slysum. Algengustu dánarorsök fólks á aldrinum 15 ára til fertugs á Íslandi má rekja til neyslu fíkniefna, þar sem áfengi spilar mikla rullu og oftar en ekki er það fíkniefni sem menn byrja á og nota með öðrum efnum. Langtíma og skammtíma afleiðingar neyslu áfengis í óhófi kosta heilbrigðiskerfið meira en nokkuð annað, nema ef vera skyldi hár meðalaldur þjóðarinnar. Skammtíma afleiðingar af óhóflegri neyslu áfengis eru síðan ábyrgar fyrir meiri kostnaði við löggæslu en nokkuð annað eitt og sér.

Það er út af þessu Logi, sem það væri óábyrgt að auka aðgengi að áfengi á Íslandi með því að leyfa íslenska netverslun og ýta því kröftugar að fólki með því að leyfa áfengisauglýsingar. Aukið aðgengi þýðir aukin neysla sem þýðir aukinn allur sá vandi sem er rakinn hér að ofan. Sú röksemd að það séu áfengisauglýsingar í erlendum fjölmiðlum og á fésbók er slöpp í besta falli. Þær auglýsingar skapa vanda sem slíkar, sem réttlætir á engan hátt íslenskar auglýsingar, sem myndu bæta gráu ofan á svart. Það er meira að segja vel þess virði fyrir íslenska ríkið að velta því fyrir sér að fara í skaðabótamál við fésbók vegna þess óskunda sem auglýsingar þeirra, ólöglegar hér á landi, kunni að hafa valdið. Það sama á við um röksemdina um erlenda netverslun með áfengi sem fólk nýti sér á Íslandi. Það væri skysamlegast að loka fyrir hana með lagasetningu í stað þess að bæta ofan á hana íslenskri netverslun og meira áfengi ofan í þá sem síst skyldi.

Logi, þetta er ekki spurning um að hafa vit fyrir fólki með íþyngjandi forræðishyggju. Þetta er svipað því og að hafa hámarkshraða á vegum úti. Þetta er ekki spurning um að koma í veg fyrir að þeir sem vilja sækja sér áfengi geti það. Það er enginn bagalegur skortur á aðgengi að áfengi á Íslandi. Þetta er spurning um að gera það auðveldara þeim sem ættu ekki að drekka, að halda sig frá áfengi og það er ekki íþyngjandi forræðishyggja heldur fyrirbyggjandi læknisfræði. Í lok greinar þinnar segirðu: „Treystum fólki og setjum reglur sem eru skynsamlegar, frjálslyndar og umfram allt eðlilegar.“ Logi, félagi og fóstbróðir, í fyrsta lagi ef þú færir á AA fund kæmistu að raun um að alkinn verður að gera sér grein fyrir því að hann getur ekki treyst sjálfum sér þegar kemur að áfengi. Þangað til er hann í bráðri hættu. Í öðru lagi geta reglur sem eru líklegar til þess að auka áfengisneyslu hvorki talist skynsamlegar né eðlilegar. Í þriðja lagi hafa reglur ekki lund og geta því hvorki talist frjálslyndar né íhaldsamar, en þær geta aukið frelsi á sama tíma og þær geta annað hvort aukið eða minnkað þann kærleika sem við sýnum þeim sem eiga undir högg að sækja.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: