Fréttir

Undrast aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

By Ritstjórn

August 28, 2019

Oddný Harðardóttir:

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á nýju þingi verður frumvarp um starfsemi smálánafyrirtækja. Þar verða m.a. ákvæði um að smálánafyrirtæki þurfi sérstök starfsleyfi hér á landi, ákveðin og skýr viðmið fyrir slík leyfi, um eftirlit með fyrirtækjunum og um að leyfin verði afturkölluð ef fyrirtækin uppfylla ekki lagaskilyrðin. Nú þurfa fyrirtækin ekki sérstök leyfi til starfseminnar!

Ég er fyrsti flutningsmaður málsins og verður byggt á frumvarpi mínu sem dreift var á þingi í september 2018.

Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í því ófremdarástandi sem ríkir um starfsemi smálánafyrirtækja er til skammar. Boðuð hafa verið stjórnarfrumvörp undanfarin tvö ár en engin hafa litið dagsins ljós. Á meðan söðla fyrirtækin um og beina ágengum áróðri sínum að ungu fólki, fátæku fólki og að þeim sem standa veikir fyrir.

Um 200 mál eru nú hjá Neytendasamtökunum frá fólki sem telja að fyrirtækin hafi á sér brotið og Umboðsmaður skuldara segir að stór hluti skjólstæðinga embættisins sé í vanda vegna smálána.