Umtalsverðir möguleikar Sósíalistaflokks
Gunnar Smári skrifar:
Nú eru tíu mánuðir til kosninga og samkvæmt nýjustu könnun MMR þá er fylgi flokkanna þetta:
- Sjálfstæðisflokkur: 27,1%
- Framsókn: 7,6%
- VG: 7,6%
- Píratar: 13.8%
- Samfylking: 13,8%
- Viðreisn: 9,5%
- Miðflokkur: 7,0%
- Flokkur fólksins: 6,2%
- Sósíalistaflokkurinn: 5,0%
En hversu mikið getur þetta riðlast á þessum tíu mánuðum? Ef við skoðum könnun MMR tíu mánuðum fyrir kosningarnar 2017 þá breyttist margt, sveiflan milli flokkanna varð nettó eins og 1/5 kjósenda skipti um skoðun.
Í fyrsta lagi þá klofnaði Framsóknarflokkurinn þegar Miðflokkurinn var stofnaður. Það dró þó ekki fylgi Framsóknar niður, sem mældist 10,2% tíu mánuðum fyrir kosningar, nánast það sama og flokkurinn fékk í kosningunum (10,7%). 10,9% atkvæða sem Miðflokkurinn fékk komu því annars staðar frá. Þetta sýnir að margt getur gerst á tíu mánuðum, það geta orðið til ný framboð og/eða einhver framboð geta stolið sviðsljósinu og sópað til sín fylgi á skömmum tíma.
Í öðru lagi þá gufaði Björt framtíð upp. Flokkurinn mældist með 9,1% fylgi tíu mánuðum fyrir kosningar en hann fékk aðeins 1,2% í kosningunum sjálfum. Björt framtíð var andlega skyldust Samfylkingunni og fall hennar skýrði að hluta af hverju Samfylkingin fór úr 6,9% í könnun tíu mánuðum fyrir kosningar í 12,1% atkvæða í kosningunum 2017. Annað sem hjálpað hefur Samfylkingunni er að VG fór úr 10,7% í 16,9% og Píratar úr 12,7% í 9,2%. Ef við tökum alla þessa flokka saman, Samfylkingu, VG, Pírata og Bjarta framtíð, litrófið frá miðju að vinstri, þá mældust þessir flokkar með 49,4% samanlagt tíu mánuðum fyrir kosningar en uppskáru aðeins 39,4%. Samfylkingin náði aðeins að grípa 1/3 af því fylgi sem Björt framtíð, VG og Píratar misstu frá sér.
Í þriðja lagi reis upp annar nýr flokkur og komst á þing. Flokkur fólksins var aðeins með 2,2% tíu mánuðum fyrir kosningar (hafði fengið 3,5% í kosningunum 2016) en fékk 6,9% atkvæða haustið 2017, meira en þrefaldaði fylgi sitt. Samanlagt fylgi nýju flokkana sem náðu inn á þing, Flokks fólksins og Miðflokksins, fór úr 2,2% í 17,8%, sveifla frá eldri flokkum til nýrri flokka sem nam atkvæðum 6,5 hvers kjósanda.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 29,3% tíu mánuðum fyrir kosningarnar 2017 en fékk 25,2% upp úr kjörkössunum. Í dag mælist hann með 27%. Ef næstu tíu mánuðir fara eins með flokkinn og síðustu tíu mánuðirnir fyrir kosningarnar 2017 gæti hann fengið 23% atkvæða.
Hverjir eru þá möguleikar Sósíalistaflokksins, nýs flokks sem hefur haft áhrif á umræðuna en sem er ekki með jafn skíra ásjónu og þeir flokkar sem sitja á þingi? Miðað við árangur nýju flokkanna síðast eru möguleikar Sósíalista umtalsverðir, hann mælist nú mun stærri en hinir tveir gerðu tíu mánuðum fyrir kosningar. Það má líka sjá á sveiflunni síðustu tíu mánuðina síðast að flokkar sem komast á flug geta dregið að sér atkvæði víða að, flokkar eru ekki bara að slást um atkvæði við næstu nágranna. Sósíalistar geta sótt atkvæði til VG, Flokks fólksins, Pírata og Samfylkingar en flokkurinn getur líka haft áhrif á kosningabaráttuna svo að fylgist hreyfist frá hægri til vinstri, yfir miðjuna.
Miðað við stöðuna í dag verður Sósíalistaflokkurinn eini valkostur þeirra sem vilja breyta samfélaginu. Aðrir flokkar eru hver um sig með ýmsar lagfæringartillögur, annan tón og áherslur, en enginn þeirra mun leggja fram kosningastefnuskrá um breytt samfélag, samfélag réttlætis, jöfnuður og samkenndar sem taka mun við af samfélagi græðgi, ójöfnuðar og óréttlætis.
Það má benda á eitt varðandi kannanir; þær spyrja ætíð um alla flokka sem voru í framboði síðast. þannig er enn spurt um Alþýðufylkinguna, þótt sá flokkur hafi lýst því yfir eftir síðustu kosningar að hann ætlaði ekki að bjóða fram aftur og helstu talsmenn hans hafa gengið í Sósíalistaflokkinn.
Síðustu tólf mánuði hefur fylgi Sósíalista sveiflast frá 3,3% upp í 5,6% hjá MMR. Á sama tíma hefur fylgi Alþýðufylkingarinnar mælst frá 0% upp í 1,7%. Auðvitað á Sósíalistaflokkurinn ekki það fylgi víst, enda ómögulegt að segja til um hvað það fólk er að hugsa sem merkir við Alþýðufylkinguna í könnunum.
En ef við tökum saman þessa tvo flokka vinstra megin við VG þá hafa þeir samanlagt mælst með 4,1% og upp í 7,1% hjá MMR, síðast með 5,6%. í 2/3 hluta kannana MMR er samanlagt fylgi þessara flokka yfir 5% þröskuldinum, 5,6% að meðaltali. VG mældist síðast með 7,6% til samanburðar.