- Advertisement -

Umtalsverð spjöll orðið á Þingvöllum

- hert verður að atvinnustarfsemi, verkefnum, rannsóknum, viðburðum og öðru í þjóðgarðinum. Þetta kemur fram í nýju lagafrumvarpi umhverfisráðherra.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.
Þrengt verður að allskyns atvinnustarfsemi innan Þingvalllaþjóðgarðs.

„Umtalsverð spjöll hafa orðið á náttúru innan þjóðgarðsins vegna átroðnings og fjölgunar ferðamanna,“ segir meðal annars í greinagerð með nýju lagafrumvarpi, sem Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, hefur lagt fram á Alþingi.

Þar segir einnig: „Til að stemma stigu við þessu hafa þjóðgarðsyfirvöld þurft að bæta og auka við aðstöðu sem hefur leitt til stóraukinna útgjalda í rekstri þjóðgarðsins. Starfsemi þjóðgarðsins er í dag fjármögnuð með fjárveitingum af fjárlögum, tekjum af leigu lóða innan þjóðgarðsins og innheimtu þjónustugjalda vegna afmarkaðrar þjónustu innan þjóðgarðsins. Þessi tekjuöflun hefur ekki reynst nægjanleg til þess að takast á við breyttar aðstæður. Frumvarpinu er m.a. ætlað að stuðla að því að þjóðgarðsyfirvöldum verði tryggðir auknir fjármunir þannig að unnt sé að stuðla með skilvirkum hætti að uppbyggingu og vernd þjóðgarðsins.“

 Þingvallanefnd veiti leyfi

Í frumvarpinu er sagt að afla verði leyfis Þingvallanefndar, eða þjóðgarðsvarðar í umboði hennar, vegna hvers konar skipulagðra viðburða og verkefna innan þjóðgarðsins sem m.a. kalla á aðstöðu, jarðrask, mannafla eða meðferð tækja innan þjóðgarðsins, svo sem vegna kvikmyndunar eða samkomuhalds. Jafnframt skal afla leyfis vegna rannsókna. Heimilt er að setja þau skilyrði fyrir leyfisveitingu sem nauðsynleg eru til að tryggja að náttúru, menningarminjum og mannvirkjum verði ekki spillt.

Þingvallanefnd mun, ef af verður, hafa mikið um það segja hvað má og hvað ekki.

„Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins.“

Má ekki rukka hvað sem er

Í greinagerðinni segir að ekki séu uppi áform um reikna kostnað við almennan rekstur þjóðgarðanna inn í upphæð þjónustugjalda. Bent er á að eðlilegt er að kostnaður við rekstur sem nauðsynlegur er vegna veittrar þjónustu, svo sem umsjón með salernum og bílastæðum og eftirlit með dvalargestum, sé reiknaður inn í upphæð þjónustugjalda enda um tengdan kostnað að ræða sem uppfyllir skilyrði reglna um þjónustugjöld.

Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar er bent á að við gjaldtöku verði að hafa í huga að stjórnvaldi sé eingöngu heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem er í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu eða starfsemi sem sérstaklega er tilgreind í viðhlítandi gjaldtökuheimild en að jafnaði sé ekki heimilt að líta til annarrar og óskyldrar starfsemi stjórnvaldsins. „Vísa samtökin í álit umboðsmanns Alþingis í umsögn sinni því til stuðnings og ítreka að þjónustugjaldi sé eingöngu ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við þá þjónustu sem látin er í té af hinu opinbera.“

Ferðaþjónustan telur að stjórnarskráin komi hreinlega í veg fyrir að; „…að stjórnvaldi sé með öllu óheimilt að afla almennra rekstrartekna með innheimtu þjónustugjalda.“ Tekið er undir þetta og bent er á að ekki sé ætlunin að afla almennra rekstrartekna með þeim gjaldtökuheimildum sem frumvarpið kveður á um.

Hér er unnnt að lesa frumvarpið.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: