- Advertisement -

Umræðan – hin hliðin á plötunni

Viðhorf Hvern dag er ég minntur á að umræðan verði að fara fram. Fólk sem ég þekki, og fólk sem ég þekki ekki, setur sig í samband við mig í þeim tilgangi helstum að segja mér þetta sama, það er, að umræðan verði að fara fram.

Hvaða umræða? Jú, umræðan um moskuna, um múslimi, um útlendinga, um íslenska velferðarkerfið. Nú, þarf hún að fara fram og núna? Vegna hvers? Vegna þess að frambjóðandi í kosningum greip moskuna sem hálmstrá þegar við blasti að enginn árangur yrði af puðinu við að komast í borgarstjórn? Eða vegna þess að leiðarahöfundur Morgunblaðsins talaði um ásælni útlendinga í íslenskt velferðarkerfi? Ég hinkra við og spyr sjálfan mig, hvenær fer umræða af stað og hver hleypir henni af stað?

Og svo hitt, eru fleiri hliðar á málinu. Best að líta í eigin barm.

Sjálfur á ég þrjú börn og fimm barnabörn. Tvö barnanna, tvö tengdabörn og fjögur barnabarnanna eru nýbúar í öðru landi. Og vegna hvers ætli það sé? Jú, vegna þess að á Íslandi er ekki hægt að öðlast þá menntun sem þetta fína fólk sækir eða sótti í. Nú, er það svo? Erum við ekki betur sett en svo að við þurfum á öðrum þjóðum að halda? Hvernig væri, til að mynda okkar rómaða heilbrigðiskerfi, ef ekki væri vegna menntunar sem fæst í öðrum löndum? Og fæst ekki hér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allir þeir Íslendingar sem sækja menntun til annarra landa verða innflytjendur í þeim löndum. Verður þetta ekki að vera gagnkvæmt? Hvað erum við að ybba gogg? Kunnum við ekki öll sögur af hversu fínir leikskólarnir, heilsugæslan og allt hitt er í öðrum löndum, kerfi sem þarlendir byggðu upp?

Hvað með moskuna? Var hún á dagskrá? Hversu margir gerðu athugasemdir þegar þeirra var óskað? Enginn. Því er hún á dagskrá núna? Hver setti hana á málaskrá þjóðarinnar? Og í hvaða tilgangi?

Það eru margir búnir að segja mér munnmælasögur um eitt og annað í islam. Margt miður gott. Munnmælasögur eru munnmælasögur og ekki allar marktækar. Ég efast ekki eitt augnablik að meðal múslima er vont fólk. En er sanngjarnt að dæma alla samkvæmt því. Og ef svo ætti að gera, hvað þá með Kristskirkju við Landakot? Hvað með kaþólikka? Munum við ekki áganginn í þjóðkirkjunni þar sem vondir menn hafa starfað í skjóli trúarinnar?

„Ég er þjóðrembill,“ sagði maður við mig fyrir fáum dögum. Hann sagðist aðhyllast íslenskt og óttaðist að hér blandist fólk um of. Það er hans skoðun. Hversu mörg okkar þekkja til, eða tengjast fólki, sem er ekki norrænt í útliti? Fólk sem hefur fæðst í öðrum löndum eða átt foreldra sem fæddust fjarri Íslandi?  Og er fólk meðal okkar sem telur sig vera meiri eða betri Íslending en það fólk? Já, það er það. Skil ekki hvers vegna, en svo er. Því miður.

Þegar sagt er að umræðan verði að fara fram finnst mér sem verið sé að kalla eftir rökum fyrir kosningaráróðri Sveinbjargar Birnu Sveinbjörsdóttur og þeirra sem voru með henni í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík. Áður var ekkert kall eftir umræðunni. Ekkert.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: