- Advertisement -

Umræðan á þingi oft í formi slagorða

„Þá að störfum þingsins. Þau hafa valdið mér miklum vonbrigðum og það sem verra er, það virðist ómögulegt að breyta þeim,“ sagði Karl Garðarsson alþingsimaður á þingi í gær.

Og hann bætti við: „Of margir ólíkir hagsmunir rekast á innan flokkanna, hagsmunir stjórnar og stjórnarandstöðu hverju sinni. Vinnubrögð eru tilviljunarkennd innan þingsins og í þingnefndum, málafjöldinn er of mikill til að einstakir þingmenn geti sett sig nógu vel inn í einstök málefni. Útkoman verður umræða sem sjaldan ristir djúpt og er oft í formi slagorða. Magnið er meira en gæðin. Til viðbótar bætist síðan endalaust málþóf í einstökum málum.

Tímasóunin er mikil hjá okkur, sem er auðvitað líka skipulagsatriði. Það væri óskandi að hægt væri að skipuleggja störf þingsins þannig að árangur yrði meiri og fleiri mál yrðu afgreidd. Það er sárt að sjá mörg góð mál daga uppi, fá ekki afgreiðslu vegna tímaskorts á síðustu dögum þingsins. Mörg þeirra mála láta ekki mikið yfir sér, þau eru jafnvel stefnumarkandi og til þess fallin að bæta líf fólks.

Hér vil ég nefna eitt mál sem ég hef lagt fram ásamt þingmönnum úr mörgum flokkum. Það varðar geðheilsu barna, að skimað verði fyrir þunglyndi og kvíða hjá öllum börnum og unglingum. Tilgangurinn er að bæta líf barna okkar og búa þeim betri framtíð. Kostnaður er ekki mikill en árangurinn gæti orðið ómetanlegur. Málið var lagt fram í tíma en ég hef ekki einu sinni fengið að mæla fyrir því. Ég þarf væntanlega að leggja það aftur fram í byrjun september. Þetta er bara lítið dæmi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: