Björgvin Guðmundsson skrifar: Ellert B. Schram formaður FEB í Rvk ræðir svikin loforð ríkisstjórnarinnar við eldri borgara í grein á heimasíðu félagsins. Hann segist hafa talið að starfshópur aldraðra og stjórnvalda ætti að skila áliti um hækkun lífeyris áður en fjárlög væru afgreidd. En þau hafi verið afgreidd án þess og minni hækkun lífeyris í fjárlögunum, 3,4%, en nemur áætlaði verðbólgu (3,5%).
Ellert segir: Kaupmáttur lífeyris frá TR heldur áfram að dragast aftur úr kaupmætti launa. Eins og hann hefur gert í mörg undanfarin ár. Þetta eru sem sagt skilaboðin frá stjórnvöldum. Þetta eru viðbrögðin við beiðni fulltrúa eldri borgara gagnvart ríkisstjórn, fjárlaganefnd Alþingis og starfshópi, sem enn á eftir að skila frá sér tillögum sínum. Ummæli fjármálaráðherra á þingi, sem sjónvarpað var um daginn, er eins og löðrungur í andlitið. Ég hef staðið í þeirri meiningu að starfshópurinn, sem skipaður var í nafni forsætisráðherra, sé sameiginlegur hópur eldri borgara og talsmanna ríkisins, sem skili sínum tillögum, áður en gengið er frá fjárlögum, nú fyrir áramótin. Eða er hann bara til sýnis?
Hvar er fólkið og flokkarnir sem sitja á Alþingi? Eða er þetta eins manns ákvörðun? Er þetta niðurstaðan fram hjá hópnum sem setið hefur síðan í vor, skipaður af fulltrúum ríkisins og talsmönnum eldri borgara? Er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Fara aðrir ráðherrar, þingmenn stjórnarflokkanna og kjósendur, óspurðir í klappliði?
Með 3,4% hækkun lífeyrisins dregst kaupmáttur launa, aftur úr, eins og hann hefur gert í mörg undanfarin ár. Hann er hungurlús.
Fyrirsögnin er Miðjunnar.