Verkafólk er af þessum sökum dæmt til sultarlauna fyrsta ár nýrra samninga.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
14. maí 2015 voru undirritaðir nýir kjarasamningar fyrir verkafólk í Eflingu. Samkvæmt þeim hækkuðu lægstu laun um 14,5% strax.
3. apríl 2019 voru undirritaðir nýir kjarasamningar fyrir verkafólk í Eflingu. Samkvæmt þeim hækkuðu lægstu laun um 5,6% strax.
Allar kjarakröfur Eflingar náðu fram að ganga 2015 rétt áður en verkfall átti að hefjast.
Aðeins hluti af kröfum Eflingar náði fram að ganga 2019. Fyrrverandi forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sættu mikilli gagnrýni fyrir að vera ekki nógu róttækir í kjaramálum og fyrir að ná ekki fram nægum kauphækkunum. Þessi gagnrýni leiddi til þess að forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, dró sig í hlé. Einnig var skipt um formann í Eflingu í frjálsum kosningum. Nokkrum árum áður hafði verið skipt um formann í VR.
Ég tel, að nýir forustumenn í verkalýðshreyfingunni, hafi ekki staðið undir væntingum þeirra lægst launuðu. Launahækkun láglaunafólks er of lítil, einkum fyrsta árið. Enda var henni slakað niður að beiðni ráðherra og Seðlabanka.
Verkalýðsforingjarnir höfðu ekkert leyfi til þess að slaka launum verkafólks niður fyrsta árið. Þeir lögðu það ekki undir atkvæði félagsmanna. Lægstu laun verkafólks hækka aðeins um 5,6% strax eða um 17.000 kr á mánuði en áttu að hækka um 10% eða um 30 þús. kr.
Verkafólk er af þessum sökum dæmt til sultarlauna fyrsta ár nýrra samninga. Það er engin leið að lifa mannsæmandi lífi af 248 þús. kr á mánuði eftir skatt. Þetta á formaður VR erfitt með að skilja, þar eð hann er með ofurlaun sem formaður. Ég tel einnig, að verkalýðshreyfingin hafi lagt of mikla áherslu á að beina kröfum sínum til ríkisstjórnarinnar í stað þess að láta atvinnurekendur greiða meira. Ríkið lætur almenning borga reikninginn.
VR og Efling ætluðu að gæta hagsmuna aldraðra og öryrkja við lausn kjaradeilunnar. Það var ekki gert. Ekki er minnst einu orði á bætt kjör aldraðra í öllum orðaflaumnum, sem fylgir kjarasamningunum frá ríkisstjórninni. Það er ekki ástæða til þess að hrópa hátt húrra fyrir samningunum enda þótt orðaflaumur sé mikill. Staðreyndir gilda.