- Advertisement -

Umboðsmaður Alþingis kvartar

Stjórnsýsla „Fjárveitingavaldið hefur ekki talið unnt að verða við óskum um aukna fjármuni til að fjölga starfsfólki svo hægt sé að sinna þessum þætti að einhverju marki,“ segir í grein sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, skrifar í Morgunblaðið í dag, þar sem hann svarar grein Heiðars Guðjónssonar frá deginum áður.

Tryggvi rekur nokkuð mál Ursusar ehf., fyrirtækis Heiðars, sem leitaði til umbðsmanns, en málið hefur verið lengi til meðferðar hjá Tryggva og hans fólki.

En hver er ástæða þess að mál eru svo lengi til vinnslu hjá umboðsmanni Alþingis. Jú, það vantar peninga ekki síst þar sem málum hefur fjölgað.

Tryggvi segir nánar um þetta: „Þannig fjölgaði kvörtunum milli áranna 2010 og 2011 um 40% og þessi fjölgun hefur ekki gengið til baka. Lögð hefur verið áhersla á að afgreiða þær kvartanir sem hafa borist sem fyrst en það er ljóst að ekki hefur verið unnt að ljúka þeim málum sem þarfnast ítarlegri athugunar og úrvinnslu innan þess tíma sem ég hef talið þörf á miðað við hlutverk umboðsmanns. Þá hefur þessi fjölgun kvartana leitt til þess að embætti umboðsmanns hefur nánast ekkert getað sinnt frumkvæðisathugunum og dráttur hefur orðið á athugunum og afgreiðslum mála þar sem t.d. starfshættir og málsmeðferð á einstökum sviðum innan stjórnsýslunnar hafa verið til athugunar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að slíkar athuganir eru oft margþættar og tímafrekar. Stundum kann að vera rétt að bíða og sjá hver viðbrögð stjórnvalda verða. Fjárveitingavaldið hefur ekki talið unnt að verða við óskum um aukna fjármuni til að fjölga starfsfólki svo hægt sé að sinna þessum þætti að einhverju marki.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Grein Tryggva endar svona:

„Ég hef talið rétt, með hliðsjón af því hvernig starfssvið umboðsmanns er afmarkað, að fylgjast með úrvinnslu tiltekinna atriða hjá stjórnvöldum og dómstólum áður en ég sendi frá mér afgreiðslu mína á málinu. Þar sem ég hafði hafið athugun á þessum almennu atriðum og ekki var ljóst hver yrði framvinda hluta þeirra á vettvangi dómstóla þegar ég fór í leyfi frá daglegum störfum kjörins umboðsmanns Alþingis 15. febrúar sl. tókst ekki að ljúka málinu fyrir þann tíma. Hins vegar var talið rétt að ég ynni áfram að málinu og hafði ég gert ráð fyrir að birta niðurstöðu mína þegar ég kem aftur til starfa 1. júlí nk. að loknu leyfi. Ég tek að síðustu fram að sá tími sem kvörtun Ursusar ehf. hefur verið til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis heyrir til undantekninga og skýrist annars vegar af því að í upphafi var talið rétt að bíða eftir endanlegri niðurstöðu stjórnvalda og hins vegar af þeirri almennu athugun sem unnið hefur verið að eftir að kvörtunin barst.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: