- Advertisement -

Umboðslaus þingflokkur Vinstri grænna

Glæpir gegn mannkyni eru orðnir svo margir í stríðsátökunum í Sýrlandi að engin leið er að hafa á þeim tölu, segir þingflokkur Pírata.

Ragnar Stefánsson.

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur er ekki sáttur við þá flokksfélaga sína, sem skipa þingflokk Vinstri grænna.

„Þingflokkur Pírata sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmir árásina á Sýrland og segir óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi sínum við árásir sem ógni öryggi almennra borgara á svæðinu og hamla rannsókn alþjóðlega viðurkenndra eftirlitsaðila á efnavopnaárásinni,“ skrifar Ragnar á Facebook.

Síðan skrifar hann: „Fyrir hönd Vinstri grænna segi ég: Takk Píratar. Fólkið í þingflokki Vinstri grænna hafði ekkert umboð til að lýsa yfir stuðningi við loftárásirnar, hvort sem það var „beint eða óbeint“ . Fólkið í þingflokki VG gegn gekk algerlega gegn stefnu flokksins og þeirri friðar og lífstefnu sem sú stefna byggir á.“

Hér er yfirlýsing þingflokks Pírata:

Þingflokkur Pírata fordæmir allan ólögmætan árásarhernað í Sýrlandi. Bandaríkin, Frakkland og Bretland hafa nú gert sameiginlega árás á hernaðarleg skotmörk í Sýrlandi. Árásin var sögð svar við enn einni efnavopnaárás sýrlenskra stjórnvalda á eigin borgara. Stríðsátök í Sýrlandi, einu elsta menningarsamfélagi heims, hafa staðið yfir í sjö ár og einn mánuð. Stríðið hefur kostað um fimm hundruð þúsund manneskjur lífið og hrakið milljónir á flótta.  Á þessum tíma hafa Sýrlendingar orðið fyrir ólögmætum árásum af hálfu ríkisstjórna Sýrlands, Tyrklands, Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands og Frakklands. Engin þeirra ber hag sýrlensku þjóðarinnar fyrir brjósti með aðgerðum sínum. Árásir þeirra eru í trássi við grunngildi og lykilákvæði stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eins ber að fordæma að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað brugðist skyldu sinni gagnvart Sýrlandi sem verndari friðar og öryggis á heimsvísu. Ráðið er ófært um að beita raunverulegum og lögmætum úrræðum í deilunni vegna neitunarvaldsins, sem er ólíðandi ástand með öllu.  Það er skammarlegt að heimsfriður skuli enn velta á því, hvort leiðtogar einstakra stórvelda séu tilbúnir að leggja eigin metnað og kappsemi gagnvart öðrum stórveldum til hliðar.

Að mati þingflokks Pírata er óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi sínum við árásir sem ógna öryggi almennra borgara á svæðinu og hamla rannsókn alþjóðlega viðurkenndra eftirlitsaðila á efnavopnaárásinni. Friðsamlegar og löglegar lausnir eru óreyndar og afstaða meints friðelskandi ríkis ætti ávallt að vera að fyrst skuli reyna þær til þrautar áður en gripið er til hernaðaraðgerða.

Glæpir gegn mannkyni eru orðnir svo margir í stríðsátökunum í Sýrlandi að engin leið er að hafa á þeim tölu. Ótal stríðsglæpir hafa verið framdir og hafa fjöldamorð  gagnvart hluta íbúa svæðisins skapað neyðarástand um heim allan þar sem áður óþekktur fjöldi fólks er á flótta. Þjóðernishreinsanir Tyrkja gagnvart Kúrdum eru líka í fullum gangi í Sýrlandi, með fullri vitund og þöglu samþykki NATO ríkjanna. Vesturlönd, Ísland þar með talið, hafa hlaupist undan ábyrgð sinni gagnvart Sýrlendingum, Kúrdum og öðrum þolendum stríðsins.

Árásir Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands á Sýrland eru sérstaklega gagnrýniverðar í ljósi þess að á sama tíma var verið að undirbúa rannsókn á efnavopnaárásum Sýrlandshers af hálfu teymis frá Alþjóðlegu efnavopnastofnuninni (OPCW). Þrátt fyrir að efnavopnastofnunin hefði fullt umboð til þeirrar rannsóknar, m.a. á grundvelli aðildar þessara þriggja bandalagsþjóða okkar í NATO að OPCW, biðu þær ekki rannsóknar hennar áður en þær réðust til atlögu og grófu þar með enn frekar undan trausti gagnvart alþjóðastofnunum og friðsamlegum og lögmætum lausnum. Í því ljósi vekur það einnig áhyggjur að svo virðist sem innanlandspólitík í löndum ríkjaleiðtoganna þriggja gæti hafa ráðið för við nýafstaðnar árásir.

Íslensk stjórnvöld geta barist fyrir því að alþjóða stríðsglæpadómstóllinn í Haag fái lögsögu til þess að rannsaka mögulega stríðsglæpi allra þátttakenda. Við getum tekið stórt skref í átt að alþjóðlegu réttlæti með því að taka upp alþjóðlega lögsögu yfir stríðsglæpum á Íslandi. Sem aðilum að Rómarsáttmálanum, Genfarsáttmálunum og alþjóðasamningnum gegn þjóðarmorði ber okkur beinlínis skylda til þess að berjast fyrir réttarhöldum yfir stríðsglæpamönnum. Við getum einnig stutt fjárhagslega og pólitískt við bakið á alþjóðlegu rannsóknarnefndinni um stríðsglæpi í Sýrlandi og hafið vinnu við að setja á fót fjölþjóðlegan dómstól í samvinnu við aðrar þjóðir. Þá er rétt að minna á, að við getum hæglega tekið vel á móti miklu fleira fólki á flótta.

Það er réttlátt og eðlilegt að við beitum okkur fyrir friðsamlegum og lögmætum lausnum sem þessum í stað þess að veita ólögmætum árásum blessun okkar. Þær mannlegu hörmungar sem eru orðnar daglegt brauð í Sýrlandi eru skömm fyrir allt mannkynið. Heimsbyggðin þarf að sameinast í fordæmingu á þeim hörmungum og á því pólítíska umhverfi sem leyfir þeim að viðgangast.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: