- Advertisement -

Um kvótakerfið og nýju stjórnarskrána

Sá þessi fínu skrif hjá Katrínu Oddsdóttur:

Mörg ykkar fylgjast eflaust með hinum merkilegu þáttunum Verbúðin sem sýndir eru á sunnudagskvöldum á Rúv. Þættirnir eru úr smiðju Vesturports og listafólkið þar lagði mjög mikla vinnu í að rannsaka hvernig íslenska kvótakerfinu var komið á á sínum tíma með tilheyrandi eignatilfærslum og ofurgróða fámenns hóps sem fékk leyfi til að nýta fiskveiðiauðlindina í hagnaðarskyni.

Í þættinum í gær hófst umfjöllun um heimild til framsals kvótans sem varð að lokum að veruleika. Við sjáum hvernig hin íslenska spilling og vinavæðing réði ríkjum á þeim tíma sem um ræðir. Mér sýnist barnið Sæunn vera orðin að myndlíkingu fyrir sjálfa fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sem hefur að vissu leyti verið stolið af réttmætum eiganda hennar, þjóðinni (í lögum um stjórn fiskveiða segir orðrétt: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“) Það er óvanalegt að eigandi njóti ekki stærsta hlutans af ágóða þegar eign er nýtt. Við ímyndum okkur leigusala sem fær til dæmis aðeins 10-30% af leigunni fyrir íbúðina sem hann á… ólíklegt.

Það góða við kvótakerfið er svo auðvitað hvernig því tekst að vissu leyti að vernda fiskstofnana.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég held að stór ástæða þess að nýja stjórnarskráin hafi ekki tekið gildi sé andstaða sjávargreifa við auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar. Í nýju stjórnarskránni segir nefnilega: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Þetta skiptir fólkið í þessu landi verulegu máli. En hér er líka fámenn stétt sem hefur stórkostlega fjárhagslega hagsmuni af því að kerfið sem við búum við sæti engum breytingum.

Ég mæli mjög með skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, um kvótakerfið. Þórður Snær hefur margoft útskýrt hið grófa misrétti og auðlindarán sem felst í kerfinu og Verbúðin er nú að varpa ljósi á með mjög sannfærandi hætti.

Í nýju stjórnarskránni segir líka: „Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Hún hefði afgerandi áhrif á það að við gætum breytt kerfinu og tryggt að þjóðin fái fullt verð fyrir nýtingu á auðlindum sínum í hafi. Þessi gjafastemning sem hefur ríkt í kerfinu heitir nefnilega á einfaldri íslensku: spilling.

Endurtekið sýna kannanir að þjóðin vill ekki sætta sig við þetta arðrán, en þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnmálanna er kerfinu aldrei breytt í þágu þjóðarinnar. Hér er til dæmis ágætisgrein eftir Þórð Snæ um það hvernig 2/3 þjóðarinnar telja kvótakerfið ógna lýðræðinu: https://kjarninn.is/…/tveir-af-hverjum-thremur…/

Á þessum ágæta mánudegi í miðjum heimsfaraldri þar sem við horfum upp á veikbyggt heilbrigðiskerfið okkar berjast í bökkum vegna fjárskorts vil ég segja: Þetta þarf ekki að vera svona, því við eigum nýja stjórnarskrá!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: