Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:
En um hvað ætti sú þjóðarsátt að snúast?
Að skera Ríkisvaldið úr snöru sérhagsmunagæslu, vanefnda og aðgerðaleysis? Á þjóðarsáttin að leiðrétta skelfileg hagstjórnarmistök Seðlabankans? Eða á hún að snúast um sátt við orðinn hlut hjá launafólki og almenningi öllum? Orðinn hlut methagnaðar fyrirtækja og ofurlauna forstjóra þeirra? Orðinn hlut bankanna? Orðinn hlut um hærri arðgreiðslur og gjaldskrárhækkanir?
Er þetta dulbúin vegferð sem stjórnvöld, Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins hafa komið sér saman um og ætla að leiða verkalýðshreyfinguna í næst? Með teboðum um mikilvægi samstöðu þjóðar um hrikalega stöðu sem er alfarið á ábyrgð þeirra sem eftir sáttinni kalla?
Sú kjaralota sem við stöndum frami fyrir verður sú mikilvægasta í áratugi. Vanda þarf til verka og mun reynsla og staðfesta skipta öllu máli ef ekki á illa að fara.
Í eftirmálum hrunsins var verkalýðshreyfingin samofin valdablokk stjórnmálanna. Eftir áralöng teboð og vinaleg samtöl með sérhagsmunaöflum og stjórnmálunum gat hreyfingin sig hvergi hreyft án þess að stíga á tærnar á sjálfri sér.
Hún lokaði sig af!
Á meðan þáverandi ríkisstjórn gerði allt sem í hennar valdi stóð til að þóknast fjármagninu og kröfuhöfum á kostnað almennings, sem endaði með skelfilegum afleiðingum. Hræðslan var slík að enga mótstöðu var að finna innan veggja verkalýðshreyfingarinnar. Fólkið fór í nauðvörn og reis upp, greip potta og pönnur og skundaði á austurvöll, í nauðvörn, því málsvarann var hvergi að finna.