Oddný Harðardóttir skrifar:
Vegna umræðu um bankasölu:
Í fyrsta lagi þá hefur ríkið sem eigandi áhrif á rekstur í gegnum eigendastefnu.
Í öðru lagi er það svo að sala á eignarhlut í bönkunum verður aldrei til þess að losa ríkið við áhættu af bönkum sem geyma innstæður landsmanna.
Í þriðja lagi er holur hljómur og grátbroslegur 10 árum eftir bankahrun að segja að ríkið verði að láta bankana frá sér því rekstur þeirra sé svo áhættusamur.
Í fjórða lagi eru bankar mikilvægar stofnanir sem veita nauðsynlega þjónustu sem varðar okkur öll. Þeir stunda greiðslumiðlun, ávaxta sparifé og veita lán til húsnæðiskaupa eða annarra framkvæmda sem tengjast rekstri heimila og fyrirtækja. Bankar eru ekki eins og hefðbundin hlutafélög á markaði heldur líkari veitustarfsemi, sjálfsagði þjónustu við almenning. Og tækniframfarir eru á fleygiferð sem nýta ætti til hagsbóta fyrir viðskiptavini bankanna.
Í fimmta lagi stunda bankar líka fjárfestingastarfsemi, stundum mjög áhættusama, sem fjármögnuð er með sparifé almennings. Bankar í eigu ríkisins ættu að draga sig út þess háttar starfsemi og selja þann hluta til einkaaðila.
Í sjötta lagi á ríkið sem eigandi banka að tryggja almenningi aðgang að nauðsynlegri bankaþjónustu og að ódýrasta greiðslumiðlun sem völ er á standi öllum jafnt til boða.
Í sjöunda og síðasta lagi á ríkið ekki að selja hluti í banka fyrr en aðskilnaður á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi hefur átt sér stað. Áhættan á að vera þar sem hún er tekin, ekki hjá almenningi. Og það er fráleitt að hefja einkavæðingu bankanna á ný án þess að hafa ákveðið hvert framtíðarbankakerfi okkar á að þróast, mitt í miklum tæknibreytingum sem ættu fyrst og fremst að hámarka þjónustu og öryggi almennings í viðskiptum við banka en ekki að hámarka gróða nýrra eigenda.