„Um 2.000 manns hljóta heilaáverka árlega“
„Um 2.000 manns hljóta heilaáverka árlega hér á landi. Af þeim glíma 200–300 manns við langvarandi afleiðingar og fötlun af þeim sökum,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki.
„Orsakir áverka geta verið margar; umferðarslys, ofbeldi, íþróttaslys og föll. Það eru líka margvíslegar afleiðingar sem fólk glímir við, allt frá langvarandi verkjum í líkama, skertri hæfni og upp í hegðunarfötlun. Þá er mikil áhætta á því að persónubreytingar verði eftir heilaskaða. Það er ekki að ástæðulausu að afleiðingarnar eru kallaðar hinn þögli faraldur. Síðustu ár hefur ákall fólks, sem orðið hefur fyrir heilaskaða, og sérfræðinga á því sviði verið um að bæta greiningu og skráningu á heilaáverkum og efla sérhæfða íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem orðið hafa fyrir skaða af völdum heilaáverka. Á hverju ári bætast við tíu einstaklingar sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Sérlega vantar þennan hóp hér á landi heildstæða meðferð og endurhæfingarúrræði. Þá er einnig um að ræða stærri hóp sem glímir við afleiðingar til langs tíma því að þeir sem standa næst einstaklingi með ákominn heilaskaða, fjölskylda og vinir, standa uppi með vandann og koma að lokuðum dyrum í samfélaginu. Heilaskaða geta fylgt geðræn vandamál, mörg heilsufarsleg vandamál og félagsleg einangrun. Þessir einstaklingar einangrast, fá hvorki meðferð né endurhæfingu,“ sagði Halla Signý.
„Atferlistengd taugaendurhæfing hefur gefist vel erlendis, í því samhengi er hægt að nefna Kanada. Það er miðað við að endurhæfa færni og sjálfstjórn með því markmiði að auka sjálfstæði og lífsgæði.“