- Advertisement -

Úlfúð innan þingflokks Vinstri grænna

„Við munum að núverandi strandveiðikerfi var sett á fót af Vinstri grænum í kjölfar álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi og þá var talað um að það atvinnufrelsi næði líka til þess að stunda hrognkelsaveiðar.“ 

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar Alþingis og nú varaþingmaður Vinstri grænna, er fjarri sammála Svandísi Svavarsdóttir matvælaráðherra um boðaðar breytingar um stjórn fiskveiða. Mest þó að kvótasetja grásleppu. Hér er hægt að lesa alla ræðuna. Lilja Rafney sagði meðal annars:

„Ég ætla að halda áfram að rökstyðja þetta mál enn frekar og hef sagt það og segi það hér að ekkert í stjórnarsáttmálanum kveður á um kvótasetningu í fiskveiðistjórnarkerfinu og þess vegna er ég ósátt við að það sé búið að kvótasetja sandkola og hryggleysingja nú þegar með framsali. En það er búið og gert. Ég hef ekki séð rökstuðning fyrir því að það þurfi. Það hefur oft verið rætt um að lagfæra þetta sóknardagakerfi og komið með góðar ábendingar í þeim efnum af ýmsum þeim sem hafa stundað hrognkelsaveiðar til fjölda ára og líka Landssambandi smábátaeigenda. Þessi kvótasetning mun að mínu mati, og þeirra sem þekkja reynsluna og vita að þetta gerist mjög hratt, breytast í mikla samþjöppun á stuttum tíma. Stærri fyrirtækin eru að kaupa upp minni útgerðir mjög hratt í dag en það getur enginn stýrt því og menn geta stofnað útgerðir á kennitölu á öllum svæðum og hafið útgerð. Ég man eftir því þegar maður var yngri og var að horfa upp á skipin fara, þá var sett inni í fermingarsáttmálann, eins og maður kallaði það, að sveitarfélögin ættu forkaupsrétt, sem auðvitað hélt ekki neinu því að sveitarfélögin höfðu ekkert efni á því að nýta sér hann og allt þjappaðist þetta saman og við vitum hvernig staðan er í dag.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það væri ekki gaman að lenda í þriðju útgáfunni af Verbúðinni með þetta.

Síðar í ræðunni sagði Lilja Rafney:

„Það er auðvitað bara góður vilji að segja að 2% kvótaþak og svæðaskipting muni verða til þess að þetta muni allt vera innan ákveðinna marka og ekki fara út af svæðinu og komandi kynslóðir geti nýtt sér að stunda grásleppuveiðar eins og forfeður þeirra. En útgerðir hingað til hafa ekki verið nein börn að leika sér við varðandi það að finna ótal leiðir til að fara fram hjá alls konar girðingum og þökum, og kennitöluflakk á raunverulega eigendur og allt þetta og krosseignatengsl, við þekkjum þetta allt sem erum ekki alveg fædd í gær. Þetta er bara víti til að varast. Þar sem ég kem úr því þorpi þar sem Verbúðin var tekin og meira að segja að hluta til í mínu húsi og annað, þá vil ég bara minna á það flotta verk sem var spegilmynd af þeim tíma. Það væri ekki gaman að lenda í þriðju útgáfunni af Verbúðinni með þetta. Þó að þetta sé í smærri stíl skiptir þetta vissulega máli.“

Lilja Rafney benti á: „Við munum að núverandi strandveiðikerfi var sett á fót af Vinstri grænum í kjölfar álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi og þá var talað um að það atvinnufrelsi næði líka til þess að stunda hrognkelsaveiðar.“ 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: