- Advertisement -

Úkraína: „Það er kalt, mínus sex gráður dag eftir dag“

Við höfum fært þeim samlokur. Fórum með fjörtíu í dag. Það dugði skammt. Það voru fleiri munnar en samlokur, svo miklu fleiri. Og fólkið heldur áfram að koma.

Þór Saari skrifaði á Facebook:

„Kom hér á járnbrautarstöðina í Kraków um klukkan þrjú aðfaranótt miðvikudags með rútu frá flugvellinum í Katowice. Og mætti stríði.

Þau koma þúsundum saman. Flæða að sem stórfljót. Þau stóðu, þau sátu, þau lágu, hvar sem þau komust fyrir. Konur, börn, unglingar, smábörn, kona með barn á brjósti, og bugaðir gamlir menn. Þau voru áttavillt, örþreytt, svo þreytt að þau sögðu ekkert, ekki orð, töluðust ekki við, og börnin grétu ekki, voru kannski búin með tárin. Það var þessi þögn, þessi bugandi þögn sem sagði meira en þúsund orð. Gamall maður réri fram í gráðið og nuddaði saman höndunum, aftur og aftur og aftur, eins og hann væri að reyna að stöðva hjól tímans. Og það er kalt, mínus sex gráður dag eftir dag.

Fyrir örfáum dögum höfðu þau átt fallegt og öruggt líf. Það hvarf á einni nóttu, og það verður aldrei samt. Þau voru strönduð. Vissu ekki hvað var framundan, hvert skyldi halda. En þó komin í skjól og sloppin úr helvíti stríðs. Það var þó eitthvað.

Almenningur í Póllandi hefur lagt mikið af mörkum. Það er mikið hjálparstarf í gangi og sjúkratjöld eru risin við járbrautarstöðina. Þetta er örlát þjóð Pólverjar, en ein og hálf milljón flóttamanna er mikið.

Við höfum fært þeim samlokur. Fórum með fjörtíu í dag. Það dugði skammt. Það voru fleiri munnar en samlokur, svo miklu fleiri. Og fólkið heldur áfram að koma.

Ef þið þekkið einhverja í Kraków, segið þeim frá fólkinu á járnbrautarstöðinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: