- Advertisement -

Ufsi sem meðafli til strandveiða

Ufsi sem meðafli til strandveiða

Vigfús Ásbjörnsson, formaður smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn, skrifar:

Til þeirra sem málið varðar.

Við félagar í smábátafélaginu Hrollaugi á Höfn förum þess á leit við þá sem málið varðar að aflaverðmæti ufsa sem meðafla í strandveiðikerfinu renni 100% til útgerðar í stað 80% til útgerðar og 20% til ríkisins eins og fyrirkomulagið er núna. Strandveiðiútgerðir greiða auðlindagjöld til þjóðarinnar eins og aðrar útgerðir í samræmi við lög og reglur um auðlindagjöld eins og aðrar útgerðir. Auk þess greiða strandveiðiútgerðir árlega 70.000 krónu gjald  fyrir strandveiðileyfið á ári sem á að renna til hafna landsins sem ekki er lagt á aðra útgerðarflokka en þess má geta að strandveiðiútgerðir greiða hafnar og bryggjugjöld í samræmi við aðrar útgerðir á landinu sem ekki þurfa að greiða þetta auka gjald til hafna landsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það má segja að strandveiðar sé smæðsta útgerðareining innan fiskveiðistjórnunar Íslendinga í dag og um þær gilda margvíslegar takmarkandi lög og reglur sem margar hverjar eru mjög íþyngjandi við atvinnusköpun og rekstur strandveiðibáta. Kerfið á að stuðla að aðgengi þjóðarnnar að sínum eigin aulindum auk þess að uppfylla almenna dreifingu byggðarsjónarlegri atvinnuuppbyggingu sem það gerir en betur má ef duga skal. Einnig er í gildi um þær heildaraflaþak á hverju ári sem leiðir til þess að alls óvíst er hve marga úthaldsdaga hver bátur fær á hverju ári til strandveiða eins og reynslan sýndi   á síðustu strandveiðivertíð og geta þessir dagar aldrei orðið fleiri en 48 dagar á bát sem er miður. Tekjur þessara báta eru því ekki miklar á ari hverju og því er alger þörf á því að aflavermæti þess afla sem strandveiðútgerðir skapa renni til útgerðana. Strandveiðiútgerðir greiða veiðigjöld til ríkisins af öllum veiddum afla í samræmi við lög um veiðigjöld sem er gott og gilt.

Hér koma nokkur rök fyrir því að ufsi veiddur sem meðafli í strandveiðikerfinu ætti að renna 100% til strandveiðiútgerðar en ekki bara 80%

·         Strandveiðiútgerðir greiða nú þegar auðlindagjald af öllum veiddum afla samkvæmt lögum og reglum um auðlindagjöld. Það er sanngjarnt og á að vera nóg.

·         Strandveiðiútgerð er smæsta eining útgerðar í okkar fiskveiðikerfi og möguleikar hennar til nægrar tekjuöflunar er því mjög takmarkandi. Sjá lög og reglur um strandveiðar.

·         Á hverju ári  brennur inni í fiskveiðikerfinu mörg þúsund tonn af óveiddum ufsa. Það er sóun á verðmætasköpun þjóðarinnar á tiltekinni fisktegund.

·         Ufsakvóti er mikið nýttur innan fiskveiðikerfisins í tegundartilfærslur fyrr utan þann kvóta sem er vannýttur ár frá ári. Það hlýtur að gilda sömu lögmálum innan veiðiráðgjafar Hafró að vannýta fiskistofn eins og að ofnýta fiskistofn. Það hlýtur að hafa afleiðingar á heildarmyndina og í raun ættu ufsaveiðar að vera frjálsar allt árið til að veiða upp í ráðgjöf.

·         Strandveiðiútgerð greiðir sérstakt gjald til hafna landsins sem er 70.000 krónur á ári en aðrar útgerðir ekki. Þetta gjald er íþyngjandi fyrir annars smæstu útgerðir landsins og því er þörf á að aflaverðmæti ufsa renni til 100% til strandveiðiútgerðarinnar en ekki einungis 80% auk þess sem greitt er veiðigjald af 100%.

·         Það aflaverðmæti sem strandveiðiútgerð fær verður eftir í hinum dreifðu byggðum landsins sem er forsenda þess að þar verði áframhaldandi uppbygging á þeim atvinnurekstri sem strandveiðútgerð skapar og því er það nauðsynlegt að aflaverðmæti ufsans renni 100% til útgerðarinnar og verði eftir í hinum dreifðu byggðum en ekki einungis 80%

·         Aðrar útgerðir á landinu sem veiða ufsa fá 100% af aflaverðmætinu til sín en ekki aðeins 80% . Þessar útgerðir greiða einungis auðlindagjöld en ekki aukalega 20% af aflaverðmætinu til ríkisins.

·         Það eykur flækjustig stjórnsýslu strandveiða, vinnu fiskmarkaða, fiskistofu og strandveiðisjómannsins mikið að þurfa að undanskilja hluta aflans sem á að renna 80% til strandveiðisjómannsins og 20% til ríkisins mikið. Oft á tíðum veldur þetta því að bátar eiga erfitt með að giska á rétt þyngdarhlutföll í aflasamsetningu sinni og of eða vanætla þann afla sem á að renna 20% til ríkisins frá öðrum afla.

·         Það að litla strandveiðiútgerðin fái ekki til sín 100% af sínu aflaverðmæti í ufsa á meðan aðrir útgerðarflokkar sem jafnvel hafa miklu meira aðgengi að auðlindanýtingu þjóðarinnar er mjög ósanngjarnt.

·         Það að strandveiðiútgerðin fái ekki 100% af aflaverðmæti af umframafla af ufsa styður ekki við byggðasjónarmið strandveiðikerfisins og dregur úr mætti strandveiðikerfisins til þess að vera atvinnuskapandi byggðasjónarmið allt í kringum landið.

Það er einlæg von okkar að sanngjarnar breytingar verði gerðar núna á þessu strandveiðisumri í þá átt að aflaverðmæti á umframafla í ufsa renni 100% til strandveiðiútgerða en ekki einungis 80% eins og fyrirkomulagið er í dag. Strandveiðiútgerðum veitir ekkert af öllu sínu aflaverðmæti til reksturs útgerða sinna auk þess að til þess að uppfylla byggðasjónarmið  kerfisins verður aflaverðmætið að verða eftir í byggðum allt í kringum landið. Það er nóg að smæsta útgerðarform landsins greiði gjöld og auðlindagjöld í samræmi við lög og reglur um auðlindagjöld eins og aðrar útgerði innan okkar fiskveiðikerfis .


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: