Vandi heilbrigðiskerfisins verður ekki leystur með sífellt auknum útgjöldum.
„Efnafólk mun nýta sér góða og örugga heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila en við hin bíðum milli vonar og ótta á ríkisreknum biðlistum um að fá nauðsynlega þjónustu áður en það er orðið of seint.“
Það er Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem skrifar þetta 0g birtir í Mogga. Í sama blaði kemur fram að nærri fimmtán hundruð Íslendingar hafa leitað sér lækninga í útlöndum og hafa Sjúkratryggingar borgað rúma tvo milljarða þess vegna.
Landspítalinn virðist of smár eða of veikur til að sinna því hlutverki sem honum er ætlað. Vandinn er eflaust fyrst og síðast pólitískur og svo verður að huga að alvöru hvort stjórnun spítalans sé viðunandi.
Óli Björn í Mogganum: „Vandi heilbrigðiskerfisins verður ekki leystur með sífellt auknum útgjöldum (þó að við þurfum örugglega að auka útgjöldin á komandi árum og áratugum). En verst af öllu er að verða vitni að því hvernig hægt og bítandi er að myndast jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar, með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar. Efnafólk mun nýta sér góða og örugga heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila en við hin bíðum milli vonar og ótta á ríkisreknum biðlistum um að fá nauðsynlega þjónustu áður en það er orðið of seint. Og þá stendur ekkert eftir af þjóðarsáttmálanum um að sameiginlega tryggjum við öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri þjónustu óháð efnahag.“