Tvö þúsund Skagamenn daglega til Reykjavíkur
- þeir hafa borgað ómælt í Hvalfjarðargöngin þess vegna. Ráðherra bendir á mikla atvinnuuppbyggingu, einkum á Grundartanga.
Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og íbúi á Akranesi, sagði á Alþingi að tvö þúsund íbúar Akraness, sem eru alls um sjö þúsund, sæki daglega til höfuðborgarsvæðisins, ýmist til vinnu eða í skóla.
Borgað daglega í tuttugu ár
„Undanfarin mörg ár, það eru að verða 20 ár, hafa þeir borgað veggjöld og það er óánægja með veggjöldin vegna þess að það koma engar mótvægisaðgerðir á móti,“ sagði hún. Elsa Lára spurði Jón Gunnarsson ráðherra hvort komi til greina að niðurgreiða ferðakostnað þeirra sem fara langan veg til vinnu. „Kemur til greina hjá hæstvirtum byggðamálaráðherra að skoða hvort það sé möguleiki á einhverjum skattafslætti vegna kostnaðar við að komast til og frá vinnu í byggðarlögum í nágrenni höfuðborgarinnar, hvort hægt sé að koma með aðgerðir á móti veggjöldum og hvort það sé verið að skoða einhverja leið í þeim efnum?“
Óvíst hvort gjaldtakan leggist af
Jón Gunnarsson sagðist skilja stöðuna á Akranesi. „Á því svæði hefur reyndar átt sér stað á undanförnum gríðarlega mikil uppbygging í atvinnu. Þetta er það svæði þar sem vöxturinn hefur verið kannski hvað mestur hlutfallslega á landinu í fjölgun íbúa. Þeir hafa mjög sterkt atvinnusvæði á Grundartanga og víðar sem hefur skapað góð störf, traust og vel launuð störf. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta.“
Hvað varðar Hvalfjarðargöngin og gjaldtökuna þar sagði ráðherra: „Nú er staðan þannig að búið verður að borga Hvalfjarðargöngin um mitt næsta ár. Reiknað er með að ríkið eða þjóðin fái þau þá til endanlegrar eignar. Þá þurfum við auðvitað að meta það og verið er að skoða, eins og fólk þekkir, að fara í frekari framkvæmdir tengdar gjaldtöku á fleiri en þeirri leið. Að öðrum kosti fyndist mér að hætta ætti gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum nema það sé þá merkt einhverjum sérstökum viðbótarframkvæmdum.“
-sme