- Advertisement -

Tveir sigurvegarar

Össur Skarphéðinsson skrifaði:

Ríkisstjórnin virðist kolfallin. Tveir helstu flokkar hennar, VG og Sjálfstæðisflokkur, eru að sigla inn í sögulega útreið, einkum Sjálfstæðismenn.

Það eru heilbrigðismerki á lýðræðinu að málefnaleg kosningabarátta geti gjörbreytt pólitískri stöðu. Þegar baráttan hófst benti allt til að ríkisstjórnin sigldi lygnan sjó og áframhaldandi líf hennar væri í gadda slegið.

Í dag er staðan allt önnur. Ríkisstjórnin virðist kolfallin. Tveir helstu flokkar hennar, VG og Sjálfstæðisflokkur, eru að sigla inn í sögulega útreið, einkum Sjálfstæðismenn. Ef þeir standa uppi með 20-22 prósent er flokkurinn endanlega fallinn um þrjár deildir undir forystu Bjarna.

VG, með viðkunnanlegasta og vinsælasta forsætisráðherra vorra daga, hefur háð litlausa og eina misheppnuðustu kosningabaráttu síðari tíma. Hvar er Katrín? Það er einsog hún hafi týnst í kosningabaráttunni. Báðir þessir flokkar verða í sjokki á kosninganótt, og verði niðurstaðan einsog margar síðustu kannanir hafa sýnt, þá hafa hvorki Bjarni né Katrín nokkra innistæðu til að krefjast forystuhlutverks við myndun ríkisstjórnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Gunnar Smári er einfaldlega hjartað, lífið og sálin í flokknum.

Það er vandséð að nokkur leið sé fyrir Katrínu að krefjast áframhaldandi hlutverks sem forsætisráðherra. Í upphafi kosningabaráttunnar virtist þó sem það væri sjálfgefið, og yfirgnæfandi möguleikar á að hún gæti valið á milli áframhaldandi “hægri” stjórnar eða leiða nýja mið-vinstri stjórn.

Sósíalistar virtust á góðri leið með að verða senuþjófar kosninganna, og hafa háð vel útfærða kosningabaráttu. Þrátt fyrir að hafa í reynd gert út um möguleika VG til að halda áfram sem forystuflokkur í ríkisstjórn virðast þeir þó vera að gefa eftir á lokasprettinum. Fari svo, einsog könnun Fréttablaðsins virðist sýna, að Gunnar Smári verði utan þings, þá verða örlög flokksins á þingi hin sömu og í Reykjavíkurborg. Hann mun týnast og gufa upp og enginn muna að hann er á þingi, fremur en í borgarstjórn. Gunnar Smári er einfaldlega hjartað, lífið og sálin í flokknum.

Í þessari stöðu glittir í tvo sigurvegara. Samfylkingin hefur risið úr öskustó með vel útfærðri kosningabaráttu. Hún hefur haft vit á að gera nýliðann Kristrúnu Frostadóttur að flaggskipi baráttunnar. Hún er mesta stjórnmálaefni sem fram hefur komið á þessari öld, enda óverðskuldað ötuð auri dag út og inn af Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins sem er skíthrædd við atgervi Kristrúnar og augljóst framtíðarhlutverk.

Flottasta kosningaauglýsing baráttunnar sem sameinaði bæði innihald og útlit var Kristrún á hraðri göngu með rauðu regnhlífina. Staðan er allt í einu þannig að það er ekki lengur útilokað að Logi Einarsson verði við vissar aðstæður í kastfæri við stjórnarráðið.

Hún sýnist hafa tekið ákvörðun um að setja bæði VG og Sjálfstæðisflokkinn í kalt bað.

Um leið sýnist sem Framsókn hafi – einnig með flottri kosningabaráttu – náð að svipta sér úr skugga hinna stjórnarflokkanna tveggja. Flokkurinn slæst við Samfylkinguna um að verða næststærsti flokkurinn. Engum stendur stuggur af þeirri hugsun að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra. Enda stóð hann sig vel í því hlutverki um stutt skeið og stillti til friðar á róstusamasta þingi sem ég sat.

Nái flokkurinn inn barnamálaráðherranum Ásmundi Einari í Reykjavík norður, sem áður var næsta vonlaust sæti, kemur Framsókn á miklum skriði inn á nýtt þing. Ásmundur er rísandi stjarna sem vogaði mjög miklu með því að fara úr öruggu sæti í vonlítinn slag í Reykjavík. Hann hefur verið mjög réttsýnn ráðherra og á sannarlega erindi á þing. Nái hann því er um leið ljóst að Ásmundur tekur í fyllingu tímans við sem formaður flokksins.

Á örstuttum tíma hefur því kosningabarátta – sem í stórum dráttum hefur verið innihaldsríkari og málefnalegri en um langt skeið – gjörbreytt stöðunni. Merkilegasta niðurstaðan er kanski sú, að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn fram yfir síðasta söludag sem afgerandi forystuflokkur og ekkert sem bendir til að hann nái aftur fyrri stöðu. Reykvíska þróunin, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur breyst í “einn af hinum” virðist nú hafa yfirfærst á landsvísu.

Viðreisn virtist í tveimur þáttum gærkvöldsins albúin til að stökkva inn sem fjórði flokkur núverandi stjórnar, og lappa þannig upp á líf hennar. Eftir því virðist hins vegar engin eftirspurn meðal þjóðarinnar. Hún sýnist hafa tekið ákvörðun um að setja bæði VG og Sjálfstæðisflokkinn í kalt bað.

Fengið af Facbooksíðu Össurar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: