Umræðan Það er ekki alltaf þrautalaust að hafa skoðanir. Það þurfti Davíð Oddsson að reyna þegar hann skrifaði leiðara dagsins. Hann vill rannsóknir á húsi Orkuveitunnar, og það eðlilega. Davíð komst ekki hjá því að vitna til orða Sigurðar Waage, sem var nánast skipað, að leggja parkett ofan á blaut steypugólf hússins.
Það er svo sem fínt að vitna til Sigurðar, það eitt og sér var ekki vandi Davíðs. Vandinn var sá að eina viðtalið við Sigurð hafði birst í Fréttablaðinu. Það fyrirbæri hefur Davíð aldrei þolað. Í árdaga blaðsins var Davíð forsætisráðherra og lét svo illa að hann boðaði ekki Fréttablaðið á blaðamannafundi. Nóg um það.
Davíð vildi greinilega ekki vitna til Fréttablaðsins. Hann átti annan kost. Og það var Ríkisútvarpið. Sem þykir ekki merkilegur pappír hjá ritstjóranum í Hádegismóum. Þannig sat hann í gær með tvo kosti, báða vonda. Átti hann að vitna í Fréttablaðið? Nei, þá var Rúv betra. Sá galli var þó á að Rúv hafði vitnað í Fréttablaðið. Það var samt skárra að mati ritstjórans. Og í leiðaranum segir:
„Í hádegisfréttum „RÚV“ sagði svo í gær: „Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Sigurð Waage húsasmíðameistara sem lagði parket í höfuðstöðvum Orkuveitunnar þegar þær voru byggðar. Hann segist hafa lagt parketið á blauta steypuna í vesturhúsi höfuðstöðvanna og það komi ekki á óvart að það sé ónýtt.“
Ekki tókst betur til en svo að Davíð Oddsson ritstjóri kyngdi tveimur ógeðsbitum í einu. Vitnaði bæði til Fréttablaðsins og Rúv. Geri aðrir betur.
-sme