„Tvær mektarkonur, talskonur eldri borgara, hafa boðið sig fram til þings en því miður sýnast þær ekki munu hljóti brautargengi, því er verr. Þær eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv. formaður landssambands eldri borgara, LEB, og Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður félags eldri borgara, FEB,“ skrifar Hjörleifur Hallgríms á Akureyri í Mogga dagsins.
„Þórunn fór í framboð fyrir Framsókn þar sem situr svikull formaður en Ingibjörg bauð sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem er engu skárri formaður og svikull gagnvart eldri borgurum og sýnir hvernig fólk í þeim flokki hugsar yfirleitt til eldri borgara þar, sem sýnist að Ingibjörg fái ekki mikið brautargengi. Ég hélt reyndar, sem er önnur saga, að Ingibjörg væri að hallast að Miðflokknum eftir mjög svo skelegga framkomu hennar með miðflokksþingmönnum í orkupakka 3-málinu, þar sem sjálfstæðismenn kusu að afhenda ESB, þeirri örmu stofnun, auðlindir Íslands,“ skrifar Hjörleifur og svo þetta:
„Miðflokkurinn, undir forystu þess ágæta manns Sigmundar Davíðs, sem aftur á móti er ekki reyndur að svikum, hefði tekið fúslega á móti baráttukonu fyrir málefnum eldri borgara. Eitt verð ég að benda ágætri Þórunni á, sem mikla áherslu hefur lagt á uppbyggingu sjúkraheimila, sem er auðvitað hið besta mál en þó ekki alveg aðalatriðið heldur hvernig Bjarni fjármálaráðherra heldur ellilífeyrisþegum í þúsundatali svo illa höldnum fjárhagslega að þetta fólk á sér ekkert líf. Hver vill lifa á strípuðum 260 þúsund krónum á mánuði frá Tryggingastofnun? Í mörgum tilfellum vill þetta fólk búa sem lengst heima hjá sér, með þá einhverri heimilishjálp, en sér sér ekki fært peningalega og fer þá gegn vilja á sjúkraheimili til að forðast peningaáhyggjur.“
Þetta er alls ekki öll grein Hjörleifs.