Fréttir

Turnarnir tveir hafa tapað stórkostlega

By Miðjan

September 02, 2014

Þessi fréttaskýring var birt hér á Miðjunni 7. apríl í vor. Af gefnu tilefni er hún endurbirt nú.

Kosningar til Alþingis árið 1999 voru fyrstu kosningar Samfylkingarinnar. Niðurstaðan varð mörgum vonbrigði, þar sem flokkurinn var stofnaður til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin fékk 26,8 prósent atkvæða og sautján þingmenn kjörna. Í næstu kosningum jók Samfylkingin við sig og vann sinn stærsta sigur, allavega til þessa, og fékk rétt þrjátíu prósent atkvæða og tuttugu þingmenn, jafnmarga þingmenn og í kosningunum 2009, kosningunum eftir hrun.

Samfylkingin var sögð eiga að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, stefnt var að hér yrðu tveir turnar í íslenskum stjórnmálum. Skoðum flokkana tvo.

Sigrar og ósigrar

Við kosningarnar 1999 fékk Samfylkingin 26,8 prósent atkvæða og sautján þingmenn, einsog áður var sagt. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar 40,7 prósent og 26 þingmenn kjörna, þar á bæ var stórsigri fagnað. Það var nokkur hæðamunur á turnunum tveimur í fyrstu tilraun.

Næst var kosið árið 2003. Þá breyttist margt. Samfylkingin jók fylgi sitt og fékk rétt 31 prósent og 20 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu, fékk aðeins 33,7 prósent og 22 þingmenn. Þarna voru komnir tveir turnar, ekkert sérstaklega háir, en hæðamunurinn var ekki mikill.

Meðan Íslendingar lifðu í þeirri trú að hér væri eilíft sumar og við værum fremst allra þjóða var gengið til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn, sem óneitanlega hafði verið í forystuhlutverki í meira en hálfan annan áratug náði að rétta hlut sinn ögn frá vonbrigðunum 2003 og fékk 36,6 prósent og bætti við sig þremur þingmönnum, fékk 25. Samfylkingin hrökk á byrjarreit, fékk jafnmikið og hún hafði fengið 1999, eða 26,8 prósent, en nú átján þingmenn, tapaði tveimur frá næstu kosningum á undan.

Ótrúlega litlar breytingar

Svo komið hrunið. Margt hefur breyst frá þeim tíma. Ef staða turnanna tveggja, það er Sjáflstæðisflokks og Samfylkingarinnar eru skoðuð saman sést að við kosningarnar 1999 fengu flokkarnir 67,5 prósent og 43 þingmenn, 2003 fengu þeir 64,7 prósent og 42 þingmenn og 2007 fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin alls 63,4 prósent og 43 þingmenn. Sameiginleg staða þeirra var nánast sú sama í gegnum þessar kosningar.

Hrunið breytti miklu. Við kosnignarnar í fyrra fékk Sjálfstæðisflokkurinn 26,7 prósent og nítján þingmenn og Samfylkingin fékk 12,9 prósent og níu þingmenn, eða samtals 39,6 prósent og 28 þingmenn. Sem segir okkur að samanlagt fengu flokkarnir, það er turnarnir tveir, aðeins 58,7 prósent af því sem þeir fengu við kosningarnar 1999 og aðeins 28 þingmenn, eða fimmtán færri en 1999.

Og þegar betur er að gáð sést að þetta er nánast jafnmikið og Sjálfstæðisflokkurinn fékk einn í kosningunum 1999. Þá fékk hann 40,7 prósent en turnarnir fyrrverandi fengu nú 39,6 prósent og Sjáflstæðisflokkurinn fékk 26 þingmenn 1999 en samtals fengu flokkarnir 28 þingmenn í fyrra. Samkvæmt þessu má segja að þessir flokkar, sem áttu að verða burðarásar í íslenskum stjórnálum hafa misst það mikið fylgi að þeir hafa tapað samtals sem nemur öðrum flokkanna.

Staðan nú

Og að lokum, það sem meira er. Samanlögð staða þessara tveggja flokka hefur sama og ekkert breyst frá kosningunum í fyrra. MMR birti í dag niðurstöðu úr nýrri skoðanakönnun. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin fengu samtals 39,6 við kosningarnar 2013, en fengju nú, samkvæmt könnum MMR, 39,0 prósent.

(Höfundur: Sigurjón Magnús Egilsson).