„Þótt hrunið hafi verið ógott var eftirleikur þess kannski hálfu verri. Margir misstu hús sín og íbúðir og sparnað sem safnað hafði verið yfir langan tíma. Eignatjón er af óþekktum stærðum á heimsmælikvarða og sögulegan kvarða eins og rakið hefur verið í viðurkenndum hagfræðiritum. Miðað við upplýsingar opinberra aðila sem m.a. koma fram í svörum ráðherra við fyrirspurnum frá mér voru það ekki færri en 10.000 fjölskyldur sem hrepptu þau örlög að missa húsnæði sitt. Foreldrar máttu þúsundum saman leiða börnin sér við hönd út af heimilunum með öllu því raski, angist og þjáningu sem slíku fylgir. Svona snerti eftirleikurinn tugi þúsunda Íslendinga,“ sagði Ólafur Ísleifsson Miðflokki, á Alþingi.
„Sú spurning vaknar hvort annað eins gæti hafa gerst í nokkru öðru landi nema eftir stórfelldar náttúruhamfarir eða styrjaldarátök. Ég skal ekki kasta rýrð á það sem stjórnvöld leituðust við að gera en skjaldborgin reis aldrei og fyrrgreindar tölur eru til marks um árangurinn. Finnst glöggt sú reiði og gremja sem undir býr í íslensku samfélagi vegna þessarar reynslu þótt bætt hafi verið úr skák með leiðréttingunni svonefndu í tíð ríkisstjórnarinnar sem við tók árið 2013 undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.“
„Við þurfum úttekt á þessum atburðum, húsnæðismissi tugþúsunda Íslendinga sem varpað var út á götu, mat á aðgerðum sem gripið var til og mat á öðrum kostum sem kunna að hafa verið fyrir hendi. Við þurfum það sem Hagsmunasamtök heimilanna kalla rannsóknarskýrslu heimilanna og þau rökstyðja á vefsíðu sinni með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:
„Rannsóknarskýrsla heimilanna er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að gera upp við hrunið og leitast við að græða þau sár sem það skildi eftir sig, að því marki sem kostur er. Án slíkrar rannsóknar og réttmætra viðbragða við niðurstöðum hennar, er hin raunverulega staða fjármálakerfisins óvissu háð því ekki eru öll kurl komin til grafar. Sem dæmi eru enn að koma upp mál þar sem lánastofnanir hafa orðið uppvísar að því að hlunnfara viðskiptavini og þurft að endurgreiða háar fjárhæðir.“
Miðflokkurinn vil bregðast við ákalli Hagsmunasamtakanna og mun á næstunni leggja fram skýrslubeiðni þessa efnis, um rannsóknarskýrslu heimilanna. Miðflokkurinn hefur unnið ötullega að hagsmunum heimilanna í góðu samstarfi við Hagsmunasamtök heimilanna með frumvörpum, þingsályktunartillögum og málflutningi hér á Alþingi. Nefni ég lyklafrumvarp, frumvarp um vexti og verðtryggingu sem felur í sér tangarsókn úr öllum höfuðáttum gegn verðtryggingunni, frumvarp sem ætlað er að koma í veg fyrir að nokkur maður þurfi að þola innheimtuaðgerðir af hálfu aðila sem ganga um eftirlitslausir og bætta umgjörð lánshæfismats og vanskilaskrár þannig að óvandaðir aðilar geti ekki misnotað kerfið til að varpa fólki fyrir þau björg sem það að lenda á vanskilaskrá felur í sér í fjárhagslegu tilliti. Við höfum verk að vinna við að auka neytendavernd á fjármálamarkaði og verja þannig heimili landsmanna.“