Sjómannafélagið síðasta vígi flokksins í verkó.
Gunnar Smári skrifar:
Friðjón Friðjónsson, kosningastjóri og PR-ráðgjafi Sjálfstæðisflokksins, póstaði um daginn miklum spuna þar sem hann vildi útlista það fólk sem endurnýjað hefur verkalýðshreyfinguna á Íslandi sem ofbeldisfólk. Hann hélt því fram að aukinn baráttuandi innan hreyfingarinnar væri ofbeldi gegn þeim sem vildu helst af öllu að verkalýðshreyfingin yrði áfram þæg, hljóðlát og hlýðinn fyrirtækja- og fjármagnseigendum.
Eftir að hafa skrifað þessa óra var Friðjón strax kallaður til viðtals í fjölmiðlum, sem sífellt eru að leita að einhverjum sem vill halda á lofti málsstað auðvaldsins gegn almenningi. Ef Friðjón hefði í reynd áhuga á ofbeldisfólki í verkalýðshreyfingunni, hefði hann átt að kasta í status um síðasta vígi Sjálfstæðisflokksins innan hreyfingarinnar; manna á borð við þá sem Friðjón vildi sjá í forystu VR í stað Ragnars Þórs Ingólfssonar; og fjalla um þá tudda og rudda sem hreiðrað hafa um sig á skrifstofum Sjómannafélags Íslands og verja sig þar með ofbeldi gegn eigin félagsfólki.