Tuddaleg vinnubrögð Kristjáns Þórs
Vísindin grundvallast á gagnrýnni hugsun en ekki ríkisstofnunum.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Viðamikil gagnrýni kom fram á tuddaleg vinnubrögð Kristjáns Þórs Júlíssonar og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar þegar grásleppukarlar voru reknir í land í vor, nánast fyrirvaralaust.
Í fyrsta lagi snéri hún að stjórnsýslu ráðherra þ.e. að brjóta jafnræðisreglu og fara ekki yfir gögn í málinu sem sýndu berlega að stöðvunin var algerlega ónauðsynleg.
Í öðru lagi snéri gagnrýnin að því að ráðgjöfin stangaðist á við aðrar nákvæmari mælingar á stofnstærð grásleppunnar þ.e. afla á sóknareiningu og netarallið. Stofnunin lagði þær mælingar til hliðar og notaðist eingöngu við upplýsingar úr togararalli í ráðgjöf sinni.
Í þriðja lagi snéri hún að því að forsendur ráðgjafarinnar taki ekki tillit til nýjustu rannsókna á líffræði og lífsháttum grásleppunnar.
Í fjórða lagi þá hafði stofnunin notað rangar nýtingaprósentur til umreikninga á afla áranna 1985 til 2007.
Nú er ljóst að stjórnvöld hafa viðurkennt ranga útreikninga en með semingi þó og ekki hefur þeim sem píndu fram játninguna s.s. Axel Helgason verið þakkað í einu né neinu svo vitað sé.
Það segir mikið um forsendur vitleysisráðgjafarinnar að einhverjar reikningskúnstir með nýtingaprósentu fyrir áratugum síðan hafi úrslitaáhrif á hvað má veiða, á sama tíma og glæný gögn eru lögð til hliðar.
Það er mikilvægt að ráðamenn m.a. þingmenn í atvinnuveganefnd fylgi þessu máli eftir þannig að það fáist fullnægjandi svör við allri gagnrýninni. Það er mikilvægt að undirstrika það að vísindin eiga að fagna málefnalegri gagnrýni enda eiga vísindin að byggja á gagnrýnni hugsun.