Það er ekki gleði sem ræður ríkjum í Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Hér er kafli eitt úr því annars ágæta bréfi. Í bréfinu er fjallað um stjórnarskrána, núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
„Ein skrítnasta ekkifréttin af mörgum úr íslenskri umræðu stafar hins vegar frá því sem kallað er stjórnlagaráð, sem var eitt af mörgum fyrirbærum á tímum öngþveitisára Jóhönnustjórnarinnar, sem misst hafði meirihluta sinn á þingi eftir aðeins tvö ár en hékk áfram í önnur tvö öllum til ama og stjórnarflokkunum sjálfum til sögufrægs hruns í kjölfarið.
„Hér varð hrun,“ hefði Steingrímur getað sagt að morgni þeirra kosninga í 200-asta sinn, er hann horfði á stjórnarflokkana tvo í tætlum að loknum kosningum.
Eftir að aðsúgur hafði verið gerður að Alþingishúsinu með skrílstilburðum sem Ríkisútvarpið ýtti undir frá morgni til kvölds hvers dags, fór Samfylkingin úr ríkisstjórn, sem verið hafði helsti kjölturakki útrásarvíkinganna í ríkisstjórn og tryggt þar ásamt ráðherra sem þá var í liði sjálfstæðismanna, að engin viðbrögð yrðu þrátt fyrir þungar og alvarlegar aðvaranir.
Sömu Samfylkingu var svo trúað fyrir því að fara með forystu í þeirri ríkisstjórn, þótt altalað væri að vísu að Steingrímur J. leiddi að öllu leyti nema að nafninu til. Þau skötuhjú voru þó bæði ráðin í því að það „hrun“ skyldi nú nota til hins ýtrasta til umbyltingar á hinni stjórnmálalegu mynd landsins. Tryggja skyldi að Íslendingar yrðu út í það óendanlega skuldugir upp fyrir haus. Þeir skyldu ganga í Evrópusambandið undir því lygamerki að vera þar girti fyrir að að þjóðir lentu í bankahruni. Staðreyndin var þó sú að sumar ESB-þjóðir fóru miklar hrakfarir og verða í áratugi að ná vopnum sínum á ný. Þá skyldi gerbreyta stjórnarskrá landsins, þeirri sömu og nærri 100% þjóðarinnar höfðu samþykkt og staðfest var með lýðveldinu sjálfu á Þingvöllum við Almannagjá. Enginn hefur þó reynt að færa fyrir því rök að íslenska stjórnarskráin hafi eitthvað haft með hrun í bankakerfi Vesturlanda að gera! Bankaáföll þessara tíma löskuðu fjölda þjóða, nær og fjær, og hvergi datt mönnum í hug að gera þyrfti sérstaka árás á stjórnarskrána sína af því tilefni.
Valið var fólk í sérstökum kosningum til að hringla í stjórnarskránni og allur umbúnaður þess leiddi til þess að enginn sem þannig var tilkallaður hefði umboð sem næði máli.“