„Hvers vegna er ekki nú þegar farið að borga réttar bætur til þeirra öryrkja sem hafa verið skertir fjárhagslega?“
„Umboðsmaður Alþingis tók á ólöglegum búsetuskerðingum gagnvart öryrkjum í júní 2018 eða fyrir rúmu hálfu ári og Tryggingastofnun ríkisins er enn ekki farin að borga samkvæmt úrskurði hans. Þarna er verið að skerða ekki bara fátækt fólk heldur þá fátækustu meðal fátækra á Íslandi. Þarna eru um 1.000 öryrkjar sem fá skertar bætur frá TR og tugir öryrkja sem gert er að lifa á minna en 80.000 kr. á mánuði og sumir fá svo til ekki krónu til framfærslu,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í ágætri grein sem hann skrifar í Moggann í dag.
Guðmundur Ingi bendir á að einstaklingar geti fengið félagsbætur frá bæjar- eða sveitarfélögum, en ef þeir eigi maka fái þeir ekki félagsbætur og þeim er gert að vera á framfærslu makans; „…eins og það er nú ömurlegt hlutskipti og valdhöfum til háborinnar skammar. Þessi gjörningur hefur staðið yfir í tíu ár, frá 1. maí 2009. Núna kemur ríkið og segist ætla bara að bæta fjögur ár aftur í tímann. Bara 4 ár. Hvað er ríkið að segja? Okkur tókst ólöglega að ná hluta af bótum öryrkja í sex ár af tíu árum og það af þeim sem fátækastir eru hér á landi?“
Guðmundur Ingi bendir á hið augljósa:
„Við höfum borgað sanngirnisbætur vegna þess að brotið hefur verið á fötluðum einstaklingum og veiku fólki. Það er engin sanngirni í því að borga bara fjögur ár en ekki öll tíu árin sem þessar ólöglegu skerðingar stóðu yfir. Við skulum átta okkur á því að í þessum hópi eru einstaklingar sem voru ekki bara skertir ólöglega heldur voru þær litlu bætur sem þeir fengu notaðar til þess að skerða dánarbætur maka. Hversu langt getur þetta kerfi gengið í því að níðast á þeim sem verst standa í þessu samfélagi?“
Guðmundur Ingi segist munu halda áfram að fylgja þessu máli eftir:
„Flokkur fólksins segir: stoppum strax þetta fjárhagslega ofbeldi og greiðum að fullu allt til baka og það með vöxtum og dráttarvöxtum. Það er oft mjög flókið hjá Tryggingastofnun ríkisins að leiðrétta mál er varða öryrkja en mjög einfalt að taka af þeim réttindi þeirra.“
Guðmundur Ingi bendir á að ekki aðeins hafi Tryggingastofnun ekkert gert til að leiðrétta rangindin, stofnunin heldur áfram hinum ólöglegum skerðingum.
„Er það pólitísk ákvörðun að borga bara fjögur ár aftur í tímann? Er það fjárhagsleg ákvörðun sem þingið getur þá komið að? Hvers vegna er ekki nú þegar farið að borga réttar bætur til þeirra öryrkja sem hafa verið skertir fjárhagslega? Það er komið hálft ár frá niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og enn verið að skerða bæturnar ólöglega. Okkur ber að sjá til þess að fólk sem í boði ríkisins lifir í algjörri fátækt og sveltur fái rétt sinn strax, en ekki sé reynt að segja að erfitt sé fyrir Tryggingastofnun að reikna þetta út.“