Nú eru 2 ár síðan umboðsmaður Alþingis birti álit sitt nr. 8955/2016 um útreikning búsetuhlutfalls fyrir örorkulífeyri. Til upprifjunar, í stuttu máli, komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið viðhlítandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og annars lands.
obi.is: Þrátt fyrir skýrt orðað álit umboðsmanns virðist þó sem Tryggingastofnun haldi áfram að beita sömu aðferð við ákvörðun framreiknað búsetutíma fyrir örorkulífeyrisþega sem höfðu áður verið búsettir innan EES-svæðisins og umboðsmaður Alþingis taldi að ekki væri viðhlítandi lagaheimild fyrir, þar til fyrir liggur hver réttur viðkomandi er erlendis.
73 enn búsetuskertir án lagastoðar
Þannig hafa frá 1. júní 2019 110 einstaklingar með lækkað/skert búsetuhlutfall fengið samþykkta örorku. Af þeim hafa aðeins 37 einstaklingar, eða tæp 34%, fengið samþykktan 100% framreikning fyrir útreikning örorkulífeyris og fá greitt í samræmi við það. Aðrir, 73 einstaklingar, eru búsetuskertir í samræmi við vinnureglu TR sem umboðsmaður segir ekki lagastoð fyrir.
Í svari við fyrri fyrirspurn þingmanns, í janúar 2019, kemur fram að álit umboðsmanns, nái til 1.343 einstaklinga. Í desember sama ár, einu og hálfu ári eftir álit umboðsmanns, hefur TR lokið afgreiðslu á 342 málum, hafið vinnu við 434 en í tilviki 567 einstaklinga, dánarbú þar með talin, er engin vinna hafin við leiðréttingu.
Fyrirspurn sama efnis var endurtekin nú á vormánuðum, þegar styttist í að 2 ár væru frá áliti umboðsmanns.
Þá vill svo til að einstaklingum sem álitið nær til, þ.e. þeirra sem fengu greiddan búsetuskertan örorkulífeyri frá 1. Júní 2014, hafði fjölgað um eitt hundrað og tíu, voru nú 1.453 í heild.
Skýringin virðist sú, að einstaklingum sem sækja um örorkumat, eftir að álit umboðsmanns lá fyrir, eru samt búsetuskertir eins og áður, þrátt fyrir skýrt álit umboðsmanns. Eini munurinn er að þetta sama fólk er nú sett í röðina til leiðréttingar í samræmi við álitið, í stað þess að afgreiða mál þeirra strax á réttan hátt.
Nú er afgreiðslu 499 mála lokið. Fjölda mála þar sem vinnsla var hafin hafði fækkað úr 434 í 309, eða um 125 mál. Ekki kemur fram skýring á þessum mun í svari ráðherra, en tölurnar sýna að vinna hafi hafist við aðeins 32 ný mál á árinu 2020.
Málum þar sem vinna var ekki hafin fjölgaði jafnframt um 78 á tímabilinu, eða úr 567 í 645.
Upphaflega skipti TR verkefninu upp í fjóra verkhluta.
Greiðsluþegar sem höfðu sótt um lífeyri frá öðru EES-ríki og fengið synjun þaðan
Greiðsluþegar sem höfðu sótt um lífeyri frá öðru EES-ríki.
Greiðsluþegar sem höfðu sótt um og gengið samþykkta greiðslu frá öðru EES-ríki.
Greiðsluþegar búsettir erlendis.
Samkvæmt upplýsingum á vef TR stóð til að afgreiða verkefni skv. A hluta á tímabilinu 1. maí – 30. Júní 2019, B hluta frá 1. ágúst 2019. Vinna við C hluta átti að hefjast í nóvember 2019 og við D, loka hlutann, átti vinna að hefjast í mars 2020.
Í svari ráðherra, nú þegar 2 ár eru liðin frá áliti Umboðsmanns, kemur fram að framvinda málsins er í samræmi við tímaáætlun sem TR setti sér í upphafi, en stofnunin gerir ráð fyrir að leiðréttingu verði lokið á árinu 2021. Meta þurfi hvert mál fyrir sig og beri TR samkvæmt stjórnsýslulögum að afla allra gagna og sjá til þess að mál sú nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þess skal getið að engar upplýsingar er að finna um tímaáætlun verkefnisins annað en það sem greint er frá hér að framan, það að stofnunin geri ráð fyrir að leiðréttingu verði lokið á árinu 2021 kemur aðeins fram í svari ráðherra, en er ekki að finna á heimasíðu stofnunarinnar.