Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum: Davíð heldur í vonina
„Það jákvæða er hins vegar að munurinn á milli frambjóðenda fer nú minnkandi og stuðningsmenn Trumps segja að það sé ekki síst að gerast í ríkjum þar sem mjótt hefur verið á munum,“ skrifar Davíð Oddsson í leiðara dagsins í Mogganum og hefur ekki gefið upp alla von um að „hans maður“ hafi þetta á endanum.
Davíð skrifar einnig: „Spennan vex í forsetakosningunum vestra, enda eru rétt rúmir tveir mánuðir til kjördags og menn taka brátt að senda utankjörfundaratkvæði sín áleiðis í kjörkassana. Í huga margra dregur það nokkuð úr spennu að leikurinn virðist ójafnari nú en flestir höfðu gefið sér. Skoðanakannanir ýta undir þá niðurstöðu. Þær hafa verið tiltölulega afgerandi um langt skeið og nánast allar bent eindregið til þess að Joe Biden, forsetaefni demókrata, muni fara með sigur af hólmi.“