Þótt Trump hafi háð kosningabaráttu sína sem lýðskrumari hefur hann stjórnað með áherslu á hagsmuni hinna ríku
Nouriel Roubini, sem er prófessor við New York háskóla, skrifar merka grein sem er birt í Mogganum í dag. Þar skýrir hann grunninn að hinum miklu mótmælum sem eru í Bandaríkjunum og víðar. Mjög forvitnileg grein. Miðjan kýs að birta einn kafla greinarinnar.
„Einn undirflokkur í stétt hinna ótryggu eru ungt, ómenntað, trúað og íhaldssamt hvítt fólk í smábæjum og dreifðari byggðum sem kaus Trump árið 2016. Þetta fólk vonaði að hann myndi bregðast við því efnahagslega „blóðbaði“ sem hann lýsti í innsetningarræðu sinni. En þótt Trump hafi háð kosningabaráttu sína sem lýðskrumari hefur hann stjórnað með áherslu á hagsmuni hinna ríku; hann hefur lækkað skatta þeirra ríkustu, ráðist gegn verkafólki og stéttarfélögum, grafið undan sjúkratryggingakerfinu sem Obama kom á og stutt með flestum hætti stefnumál sem voru andstæð fólkinu sem kaus hann.
Áður en COVID-19 braust á, og jafnvel áður en Trump komst til valda, dóu 80.000 Bandaríkjamenn á hverju ári af ofneyslu eiturlyfja og margir aðrir létust af völdum sjálfsvíga, þunglyndis, alkóhólisma, offitu og annarra lífsstílstengdra sjúkdóma. Eins og hagfræðingarnir Anne Case og Angus Deaton benda á í bók sinni Deaths of Despair and the Future of Capitalism hafa þessi heilsufarsvandamál lagst sífellt harðar á örvæntingarfullt, ósérhæft, atvinnuskert hvítt fólk – hóp þar sem sífellt fleiri deyja á miðjum aldri.
En meðal Bandaríkjamanna í stétt hinna ótryggu eru líka trúlausir, frjálslyndir, háskólamenntaðir borgarbúar sem hafa á undanförnum árum fylkt sér að baki vinstrisinnaðra stjórnmálamanna á borð við öldungadeildarþingmennina Bernie Sanders frá Vermont og Elizabeth Warren frá Massachusetts. Það er þessi hópur sem hefur fylkt liði á götum úti til að krefjast ekki einungis réttlætis fyrir kynþætti heldur efnahagslegra möguleika (en þessir tveir þættir eru í raun nátengdir).
Þetta ætti heldur ekki að koma á óvart í ljósi þess að misskipting tekna og auðs hefur aukist um áratuga skeið vegna mörgum þátta, þar á meðal hnattvæðingar, viðskipta, fólksflutninga, sjálfvirkni, veikingar verkalýðsfélaga, uppgangs markaða þar sem einn sigurvegari deilir og drottnar, og kynþáttamismununar. Menntakerfi sem er skipt í hólf eftir línum kynþátta og félagslegrar stöðu ýtir undir mýtuna um að hinir hæfustu nái árangri og styrkir stöðu forréttindafólks, sem fær jafnan pláss fyrir börn sín hjá fremstu menntastofnunum og þau hljóta síðan bestu störfin (og giftast síðan yfirleitt innan hópsins og koma þannig sömu forréttindum áfram til næstu kynslóðar).“