Í Mogga dagsins er viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Tilefni viðtalsins er fyrirhuguð sala á Íslandsbanka og hvernig á að fara með söluverðið.
Í fréttinni segir: „Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Ríkið á 42,5% í bankanum eða því sem nemur 850 milljónum hluta.
Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að Bankasýsla ríkisins fari með framkvæmd sölunnar og er gert ráð fyrir að salan verði framkvæmd undir stjórn ráðherrans sjálfs á grundvelli sérstakra laga.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að virði hluta ríkisins í Íslandsbanka sé allt að 100 milljörðum króna.“
„Ég hef áhyggjur af því hvernig verði farið með þessa peninga, ef þeir skila sér, því ríkisstjórnin er þegar búin að opna á það að nota tekjur af Íslandsbankasölunni í rekstur og það kemur í framhaldi af skuldbindingum ríkisins í kjarasamningum.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, hann var spurður út í frumvarpið:
„Ég óttast að ríkisstjórnin geti eytt öllum þessum peningum í eitthvað sem enginn veit hvað er, eða að þetta verði sett í rekstur til fjármögnunar umframeyðslu ríkisins,“ sagði Sigmundur.
Aðspurður segir Sigmundur að sér hugnist frekar að útdeila hlutabréfunum jafnt til allra eigenda þeirra, þ.e. til Íslendinga.
„Það getur virkjað almenning á hlutabréfamarkaði, þeir sem hafa ekki áhuga á að eiga þetta geta selt, aðrir geta átt sitt og hugsanlega haft tekjur af því,“ segir hann. Með því hafi hver og einn vald til að ráðstafa eigninni fyrir sig.
„Ég held að það muni gefa betri raun heldur en að þessi ríkisstjórn myndi ráðstafa andvirðinu.“