„Fyrir þá eru gamalreyndir og hertir í eldi stjórnmálanna, getur verið erfitt að skilja nýja strauma.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var fyrst þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að segja það opinberlega sem pískrað er um á göngum Valhallar. Núverandi forystufólk í Sjálfstæðisflokki er þreytt á stjórnarandstöðu Davíðs Oddssonar og hans fólks.
Áslaug Arna notaði Moggann sjálfan í gær til að setja ofan í við Davíð. Sjaldan er ein báran stök. Í dag skrifar Óli Björn Kárason í Moggann, rétt eins og aðra miðvikudaga, en nú sendir hann Davíð pillu, án þess að nefna hann á nafn. Það hefur enginn þorað, ekki enn. Óli Björn skrifar:
„Fyrir þá sem fyrir eru á fleti eða eru gamalreyndir og hertir í eldi stjórnmálanna, getur verið erfitt að skilja nýja strauma, átta sig á hugmyndum sem horfa til framtíðar eða sætta sig við að þeir yngri geri tilkall til þess að taka við keflinu. Þannig hefur það líklega alltaf verið.
Þeir sem sestir eru í helgan stein eða hætt daglegri þátttöku í stjórnmálum glímdu sjálfir við tregðulögmálið þegar þeir hösluðu sér völl á sviði stjórnmála. Margir geta litið stoltir yfir ferilinn, sáttir við dagsverkið. Þeir öðrum fremur ættu að horfa bjartsýnir til framtíðar – ungt hæfileikaríkt fólk sem byggir á traustum grunni sjálfstæðisstefnunnar er að taka við og mun leiða frelsisbaráttu sem hófst fyrir 90 árum.“
Þarna reynir Óli að hjálpa Davíð til að finna frið innra með sér. Hvort það tekst er allt annað mál, og flóknara.
Tímamóta hefur verið minnst í meiri sátt en níutíu ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Illdeilurnar skekkja flokkinn.