Traustið í vinaklúbbnum
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Helsta markmið ríkisstjórnarinnar var að efla traust almennings á stjórnmálunum og stjórnsýslunni í landinu. Í stjórnarsáttmálanum er það geirneglt margsinnis og í framhaldinu samin góð skýrsla á vegum forsætisráðherra um málið, Efling traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Í skýrslunni eru lagðar fram 9 tillögur um hvernig mætti auka traust á stjórnmálunum, m.a. um gagnsæi, hagsmunaárekstra, vernd uppljóstrara og siðareglur ráðamanna.
Af viðbrögðum Katrínar Jakobsdóttur við tveimur málum sem rýrt hafa verulega á traust á ríkisstjórninni sem hún stýrir, þá virðist sem hún hafi annað hvort ekki kynnt sér efni skýrslunnar eða þá ákveðið að leggja öll meginsjónarmið hennar til hliðar, til þess að vera ekki með neitt vesen í ríkisstjórninni. Ef það yrði of þungur mórall í ríkisstjórnarklúbbnum, þá gæti það jafnvel leitt til þess að hún fengi ekki lengur að sitja í forsæti.
Áframhaldandi seta Kristjáns Þórs Júlíussonar í sæti sjávarútvegsráðherra í kjölfar uppljóstrana um mútugreiðslur Samherja, er sorglegur brandari hjá ríkisstjórn sem hefur það að markmiði að efla traust á stjórnmálum og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Viðbrögð forsætisráðherra við dómgreindarleysi fjármálaráðherra, þegar hann braut sóttvarnarreglur, gefa til kynna að hún hafi mjög afmarkaðan og furðulegan skilning á því sem átt er við með traust á stjórnmálum. Það sem gerir mál Bjarna Benediktssonar verulega snúið er ekki endilega brotið sjálft heldur það að fjármálaráðherra segir augljóslega ekki satt og rétt frá atburðum, í annars ágætri afsökunarbeiðni.
Í viðtölum hefur Katrín forsætisráðherra lýst því yfir mæðulega að traust hennar á einum besta samstarfsmanni sínum fyrr og síðar, hafi skaðast.
Traust í stjórnmálum á auðvitað fyrst og fremst að snúast um tiltrú almennings, en ekki það að meðlimir stjórnmálastéttarinnar séu traustir vinir, eins og forsætisráðherra virðist halda.